Nr. 050, 28. maí 1998: Fundur Halldórs Ásgrímssonar með utanríkisráðherra Tyrklands um málefni Sophiu G. Hansen og dætra hennar.
Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra átti í dag fund með Ismail Cem, utanríkisráðherra Tyrklands, en þeir sitja nú utanríkisráðherrafund Atlantshafs- bandalagsins í Lúxemborg.
Utanríkisráðherra fjallaði um málefni Sophiu G. Hansen og dætra hennar og óásættanlega fullnustu á dómi hæstaréttar Tyrklands varðandi umgengnisrétt Sophiu við dætur sínar. Samkvæmt dómi hæstaréttar Tyrklands snemma árs 1997 eiga dæturnar að vera hjá móður sinni á tímabilinu júlí - ágúst og óskaði utanríkisráðherra eftir því, að viðkomandi tyrkneskir ráðherrar sæju til þess að eftir þessu yrði farið.
Utanríkisráðherra hefur ákveðið að senda Stefán H. Jóhannesson, skrifstofustjóra almennrar skrifstofu utanríkisráðuneytisins, til Tyrklands til samstarfs við starfsmenn tyrkneska utanríkisráðuneytisins og aðra fulltrúa tyrkneskra stjórnvalda um þetta mál.
Utanríkisráðuneytið
Reykjavík, 28. maí 1998.