Veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum
Fréttatilkynning
Veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum
Af þeim 60 síldarbátum sem leyfi fengu til veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum höfðu þann 2. júní sl. 50 skip haldið til síldveiða. Veiðiheimildir þeirra skipa sem ekki eru farin til síldveiða eru um það bil 19 þúsund lestir. Í ljósi þeirrar reynslu sem fengist hefur á síðustu árum um göngur síldarinnar og veiðimöguleika í júní, hefur ráðuneytið ákveðið að aflahámark þeirra skipa sem ekki hafa hafið síldveiðar 11. júní n.k. verði lækkað þannig, að 500 lestir komi í hlut hvers skips. Jafnframt beinir ráðuneytið þeim tilmælum til þeirra útgerðaraðila, sem leyfi hafa fengið til síldveiða, en hyggjast ekki að senda skip sín til veiða í ár, að þeir tilkynni það til Fiskistofu. Samkvæmt gildandi lögum hefur slíkt ekki áhrif á rétt þeirra til síldveiða á næstu vertíð.
Þann 11. júní n.k. kemur til endurúthlutunar aflamarks til þeirra skipa sem þá hafa hafið veiðar. Ákvörðun þessi er tekin í því skyni að stuðla að því að veiðiheimildir Íslendinga úr þessum stofni nýtist sem best.
Sjávarútvegsráðuneytið
3. júní 1998.
3. júní 1998.