Nr. 056, 9. júní 1998: Níundi fundur EES-ráðsins í Lúxemborg
FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu
_______________
Nr. 056
Í dag var haldinn níundi fundur EES-ráðsins í Lúxemborg. Í EES-ráðinu sitja utanríkisráðherrar EFTA/EES-ríkjanna og aðildarríkja ESB ásamt fulltrúum framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra, sat fundinn fyrir Íslands hönd og var jafnframt talsmaður EFTA/EES-ríkjanna.
Á fundinum var EES-samningurinn til umræðu og var það samdóma álit fundarmanna að framkvæmd hans gengi vel. Þá var á fundinum lýst ánægju með samningaviðræður Evrópusambandsins við ný aðildarríki og bent á að stækkun ESB muni einnig stækka og styrkja hið Evrópska efnahagssvæði. Lögðu EFTA/EES-ríkin áherslu á að vera upplýst um gang samningaviðræðnanna.
Utanríkisráðherra lýsti á fundinum yfir stuðningi við aukna áherslu Evrópusambandsins á sjálfbæra þróun og hvatti til nánara samstarfs EES-ríkjanna á því sviði. Í niðurstöðum fundarins var fallist á þetta sjónarmið og tekið fram að kanna beri möguleika á því að halda sameiginlega fundi umhverfisráðherra EES-ríkjanna. Einnig var á fundinum fjallað um stækkun ESB og stofnun Efnahags- og myntbandalagsins (EMU).
Í tengslum við ráðsfundinn var haldinn sérstakur fundur ráðherra EES-ríkjanna þar sem skipst var á skoðunum um pólitísk málefni. Á þeim fundi var einkum rætt um ástandið í Kósóvó, friðarferlið fyrir botni Miðjarðarhafs og grannsvæðasamstarf á norðurslóðum. Hafði utanríkisráðherra framsögu um grannsvæðasamstarf. Lagði utanríkisráðherra sérstaka áherslu á mikilvægi umhverfismála á Norðurslóðum og lýsti yfir stuðningi við frumkvæði Finna um aukna áherslu Evrópusambandsins á málefni norðursins. Benti utanríkisráðherra í því sambandi á alvarlega stöðu umhverfismála og nefndi m.a. ófullnægjandi frágang á geislavirkum úrgangsefnum á Kólaskaga. Kom fram í máli utanríkisráðherra að vonir væru bundnar við að Evrópusambandið hefði í ljósi stærðar sinnar og áhrifa frumkvæði að úrlausn slíkra vandamála í samvinnu við aðrar þjóðir.
Utanríkisráðuneytið,
Reykjavík, 9. júní 1998.