Nr. 058, 11. júní 1998: Aukaallsherjarþing Sameinuðu þjóðanna um fíkniefnavandann.
Nr. 58.
Aukaallsherjarþing Sameinuðu þjóðanna um fíkniefnavandann var haldið í New York dagana 8. - 10. júní sl. Þingið samþykkti samhljóða ýmsar ályktanir til að sporna við hinum mikla vanda sem fylgir fíkniefnaneyslu.
Með samþykkt þessara ályktana skuldbinda aðildarríki samtakanna sig til að ná verulegum og mælanlegum árangri fyrir árið 2008 í baráttunni gegn framleiðslu fíkniefna og neyslu þeirra. Er ætlunin meðal annars að herða innanlandslöggjöf og styrkja fíkniefnavarnaáætlanir fyrir árið 2003 til að stemma stigu við ólöglegri starfsemi eins og peningaþvætti og framleiðslu tilbúinna eiturlyfja. Sérstök áhersla er lögð á forvarnarstarf meðal ungmenna og aukna fræðslu um skaðsemi fíkniefna. Stefnt er að því að auka samstarf milli ríkja á sviði löggæslu til að handsama glæpamenn sem hagnast á eiturlyfjasölu og draga þá fyrir dómstóla.
Á aukaallsherjarþinginu var rætt um leiðir til að draga úr eftirspurn eftir fíkniefnum. Aðildarríkin ákváðu að hrinda áætlunum um það í framkvæmd fyrir árið 2003. Í þeim séu einnig skýr ákvæði um hvernig stjórnvöld haga meðferðar- og endurhæfingarmálum fíkniefnaneytenda.
Í ályktunum þingsins er einnig mælt fyrir um aukið samstarf aðildarríkjanna í baráttunni gegn fíkniefnum um allan heim. Sérstaklega á sú barátta að beinast að eiturlyfjum sem svipa til amfetamíns og reynt verður að stemma stigu við sölu og dreifingu hráefna sem notuð eru við framleiðslu þessara fíkniefna. Stefnt skal að eyðingu akra þar sem ræktun plantna til fíkniefnagerðar fer fram.
Þorsteinn Pálsson dómsmálaráðherra sótti fundinn fyrir Íslands hönd. Hann sagði meðal annars í ræðu sinni á þinginu, að íslensk stjórnvöld hefðu stigið stórt skref í baráttunni gegn fíkniefnum með sérstakri áætlun sem ýtt var úr vör í febrúar á síðasta ári. Dómsmálaráðherra sagði að jákvæður árangur myndi meðal annars velta á vel heppnuðu alþjóðlegu samstarfi þar sem ekkert eitt ríki gæti tekist á við þennan vanda.
Auk dómsmálaráðherra sátu þingið Stefán L. Stefánsson, varafastafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum, og Kolbeinn Árnason lögfræðingur, dómsmálaráðuneytinu.
Utanríkisráðuneytið,
Reykjavík, 11. júní 1998.