Hoppa yfir valmynd
15. júní 1998 Matvælaráðuneytið

Laxveiðiferðir Búnaðarbanka Íslands

Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti

Nr.10/1998




Í gærkvöld var, að tilhlutan viðskiptaráðherra, haldinn fundur ráðherra með formanni og varaformanni bankaráðs Búnaðarbankans, auk aðalbankastjóra bankans. Tilefni fundarins var að fá skýringar á fréttum þess efnis að Búnaðarbankinn hefði vantalið kostnað sinn vegna laxveiðiferða síðastliðin 5 ár, þegar hann svaraði beiðni viðskiptaráðherra um upplýsingar þar að lútandi. Þar af leiðandi hefði viðskiptaráðherra ekki greint Alþingi rétt frá í svari sínu við fyrirspurn Jóhönnu Sigurðardóttur alþingismanns um téðan kostnað.

Á fundinum gerðu forsvarsmenn Búnaðarbankans viðskiptaráðherra grein fyrir mistökum bankans við upplýsingagjöfina og afhentu bréf það er fylgir hér með. Í því eru mistök bankans hörmuð, beðist er velvirðingar á þeim og gerð er grein fyrir ástæðu þess að þau urðu. Ennfremur er ráðherra beðinn velvirðingar á því að honum skyldi ekki vera gerð grein fyrir þessum mistökum fyrr en nú. Bréf þetta fylgir hér með.

Í morgun átti viðskiptaráðherra fund með forseta Alþingis vegna málsins. Á þeim fundi gerði ráðherra forseta grein fyrir málinu og afhenti honum bréf sitt vegna þess. Það bréf fylgir einnig hér með.

Rétt er að taka fram að Ríkisendurskoðun hefur að undanförnu haft kostnað Búnaðarbankans vegna laxveiða til athugunar og er þeirri vinnu ólokið. Viðskiptaráðherra bíður niðurstöðu Ríkisendurskoðunar en mun fjalla um málið þegar hún liggur fyrir. Viðskiptaráðherra taldi hins vegar mikilvægt að gera forseta Alþingis grein fyrir máli þessu eins fljótt og kostur var.


Reykjavík 15. júní 1998.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum