Nr. 61, 18. júní 1998: Í dag, 18. júní, var undirritaður samningur milli Íslands, Grænlands og Noregs um loðnustofninn á hafsvæðinu milli Grænlands, Íslands og Jan Mayen, sem samkomulag náðist um 20. maí sl.
Nr. 61.
Samningur milli Íslands, Grænlands og Noregs um samstarf um stjórn veiða úr loðnustofninum á hafsvæðinu milli Grænlands, Íslands og Jan Mayen, sem samkomulag náðist um 20. maí sl., var undirritaður í Reykjavík í dag, 18. júní 1998.
Samningurinn gerir ráð fyrir að aðilar skulu leitast við að ná samkomulagi um leyfilegan hámarksafla á loðnu fyrir hverja vertíð. Leyfilegur hámarksafli skiptist þannig að Ísland fær 81 af hundraði, Grænland 11 af hundraði og Noregur 8 af hundraði, en ef í ljós kemur að hlutur Grænlands eða Noregs veiðist ekki skal Íslandi heimilt að veiða það magn sem óveitt er.
Samningurinn tekur gildi til bráðabirgða 20. júní nk. og gildir til 30. apríl 2001. Hann verður lagður fyrir Alþingi til endanlegrar samþykktar í haust nk.
Í tengslum við samninginn um loðnustofninn á hafsvæðinu milli Grænlands, Íslands og Jan Mayen voru undirritaðir þrír tvíhliða samningar um gagnkvæmar veiðar í fiskveiðilandhelgi landanna, til nánari útfærslu á loðnusamningnum, milli Íslands og Grænlands/Danmerkur, Íslands og Noregs, og Grænlands/Danmerkur og Noregs.
Jóhann Sigurjónsson, formaður íslensku samninganefndarinnar, undirritaði samningana fyrir Íslands hönd. Knut Elias Taraldset, sendiherra Norðmanna á Íslandi, undirritaði samningana f.h. Noregs og Klaus Otto Kappel, sendiherra Dana á Íslandi, undirritaði samningana f.h. Grænlands/Danmerkur.
Utanríkisráðuneytið
Reykjavík, 18. júní 1998.