Hoppa yfir valmynd
25. júní 1998 Matvælaráðuneytið

Markaðsstarf á sviði erlendra fjárfestinga samræmt

Iðnaðar- og viðskiptaráðuneytis
Landsvirkjun
Nr. 11/1998


Iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið, Landsvirkjun og Útflutningsráð hafa undirritað samning um breytingar á stofnskjölum Markaðsskrifstofu iðnaðarráðuneytisins og Landsvirkjunar (MIL) annars vegar og Fjárfestingarskrifstofu viðskiptaráðuneytisins og Útflutningsráðs (FÍ) hins vegar. Skrifstofurnar heyra eftir breytinguna undir sömu stjórn og koma fram undir einu merki. MIL fær heitið Fjárfestingarstofan - orkusvið og FÍ heitið Fjárfestingarstofan - almennt svið. Skrifstofurnar nefnast á ensku sameiginlegu heiti Invest in Iceland - General Investments / Energy Marketing.

Tilgangur Fjárfestingarstofunnar er að laða erlenda fjárfesta til Íslands. Hingað til hefur MIL sinnt erlendri fjárfestingu á sviði stóriðju en FÍ á öðrum sviðum. Markmiðið með samruna stjórnanna og nýju sameiginlegu heiti og merki er að tryggja að stefna um kynningu á Íslandi fyrir erlenda fjárfesta sé samræmd og jafnframt að efla þessa starfsemi. Stefnt er að því að starfsemin flytjist á einn stað á næsta ári.

Erlend fjárfesting hefur aukist gífurlega á síðustu árum og er það ekki síst að þakka öflugu markaðsstarfi. MIL hefur frá stofnun árið 1988 einbeitt sér að erlendri fjárfestingu í stóriðju. Mikill árangur hefur náðst á því sviði, m.a. með þremur stóriðjusamningum á síðustu þremur árum. Mörg verkefni á sviði stóriðju eru nú til athugunar. FÍ var hins vegar komið á fót árið 1995 í því skyni að veita áhugasömum erlendum fjárfestum alhliða þjónustu við athugun á fjárfestingarkostum á öðrum sviðum en stóriðju. Árangurinn af þriggja ára undirbúningsstarfi er farinn að skila sér í nýjum fjárfestingum.

Á Fjárfestingarstofunni eru 6,5 stöðugildi. Reksturinn er fjármagnaður með framlagi á fjárlögum og framlagi Landsvirkjunar. Í stjórn Fjárfestingarstofunnar sitja sex manns; þrír eru tilnefndir af Landsvirkjun og þrír af iðnaðar- og viðskiptaráðherra. Stjórnarformaður Fjárfestingarstofunnar er Jón Ingimarsson, skrifstofustjóri í iðnaðar- og viðskiptaráðuneytinu. Aðrir í stjórninni eru: Árni Grétar Finnsson, Benedikt Árnason, Halldór Jónatansson, Jóhann Már Maríusson og Jón Ásbergsson. Garðar Ingvarsson stýrir Fjárfestingarstofunni - orkusviði og Ingi Ingason Fjárfestingarstofunni - almennu sviði.
Reykjavík, 25. júní 1998.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta