Hoppa yfir valmynd
26. júní 1998 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ísland skrifar undir þrjár alþjóðasamþykktir um umhverfismál

Dagana 23. - 25. júní var haldin í Árósum í Danmörku, fjórða ráðstefna umhverfisráðherra um umhverfismál í Evrópu. Ráðstefnuna sóttu fulltrúar 55 ríkja Evrópu, auk Bandaríkjanna og Kanada, þar af 35 umhverfisráðherrar ríkja í Evrópu og nýrra ríkja fyrrum Sovétríkjanna. Á ráðstefnunni var farið yfir ástand umhverfismála í Evrópu og samþykktar ályktanir um forgangsverkefni og aðgerðir ríkjanna í umhverfismálum.

Ráðstefnuna sátu fyrir Íslands hönd, Guðmundur Bjarnason, umhverfisráðherra, Magnús Jóhannesson ráðuneytisstjóri og alþingismennirnir Árni M. Mathiesen, Hjörleifur Guttormsson og Kristján Pálsson.

Á ráðstefnunni voru samþykktir þrír nýir alþjóðasamningar sem koma til með að gilda í þessum heimshluta. Tveir samninganna fjalla um varnir gegn loftmengun sem berst langar leiðir en þriðji samningurinn fjallar um upplýsingaskyldu stjórnvalda og þátttöku almennings í ákvarðanatöku í umhverfismálum. 32 ríki auk Evrópusambandsins undirrituðu loftmengunarsamþykktirnar og 31 ríki auk Evrópusambandsins undirrituðu samninginn um upplýsingaskyldu. Ísland undirritaði alla samningana.

Tveir fyrstnefndu samningarnir eru viðaukar við samning um mengun sem berst langar leiðir í lofti og var hann fullgiltur af Íslands hálfu árið 1983. Viðaukarnir sem nú bætast við samninginn fjalla annars vegar um takmörkun á mengun af völdum þrávirkra lífrænna efna og hinsvegar um þungmálma.

Undirritun þessara tveggja viðauka tengist aukinni vernd gegn mengun hafsins. Efnin sem tekið er á í viðaukunum eru afar skaðleg og er vaxandi mengun af völdum þeirra á Norðurslóðum m.a. í ísbjörnum, vísbending um þá hættu sem kann að stafa af þessari mengun, verði ekkert að gert. Afleiðingar slíks gætu orðið alvarlegar fyrir lífríki sjávar og íslenskan sjávarútveg. M.a. þess vegna hafa íslensk stjórnvöld lagt á það ríka áherslu á undanförnum árum að hafist verði handa um gerð hnattræns samnings um þrávirk lífræn efni enda töluvert um notkun þessara efna í þróunarríkjunum. Munu samningaviðræður um slíkan samning hefjast í Montreal í Kanada i næstu viku. Má að verulega leyti þakka frumkvæði íslenskra stjórnvalda að nú skuli sest að samningaborði um þetta alvarlega vandamál.

Samningurinn um aðgang að upplýsingum, þátttöku almennings í ákvarðanatöku og aðgangur að réttlátri málsmeðferð í umhverfismálum hefur að markmiði að tryggja rétt almennings til aðgangs að upplýsingum um umhverfismál og þátttöku í ákvörðunum þar að lútandi. Er samningnum ætlað að stuðla að því að réttur fólks til að búa í umhverfi sem er viðunandi fyrir heilsu þess og almenna velferð sé tryggður. Samningur þessi er tímamótasamningur, þar sem ekki hafa áður verið gerðir alþjóðlegir samningar um þetta efni.

Í lokayfirlýsingu ráðstefnunnar er fjallað um helstu forgangsmál í umhverfismálum á svæðinu. Þar er fjallað um aðgerðir til að efla aðgerðir í umhverfismálum almennt, framkvæmd þeirra samþykkta um varnir gegn loftmengun sem undirritaðar voru, aðgerðir til þess að hætta notkun blýbensíns, aðgerðir til að auka orkunýtni og draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, verndun líffræðilegs fjölbreytileika og framkvæmd samningsins um upplýsingaskyldu. Þá er lögð áhersla á sérstakar aðgerðir til stuðnings hinum nýfrjálsu ríkjum Evrópu og ríkjum Mið- og Austur-Evrópu.

Næsta ráðstefna umhverfisráðherra Evrópu verður árið 2002.

Fréttatilkynning nr. 26/1998
Umhverfisráðuneytið


Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta