Hoppa yfir valmynd
9. júlí 1998 Matvælaráðuneytið

Fundur sjávarútvegsráðherra og Pâviâraq Heilmann.09.07.98

Fréttatilkynning


Eftir fund Þorsteins Pálssonar sjávarútvegsráðherra og Pâviâraq Heilmann sem fer með sjávarútvegsmál í Grænlandi gáfu þeir í dag út sameiginlega fréttatilkynningu, svohljóðandi:

Samstarf Íslands og Grænlands á sjávarútvegssviðinu verður eflt. Í Ilulissat skrifuðu Þorsteinn Pálsson sjávarútvegsráðherra Íslands og Pâviâraq Heilmann sem fer með sjávarútvegsmál í grænlensku landsstjórninni, undir samning um samstarf landanna í sjávarútvegsmálum.

Fyrstu áhrif samningsins verða stofnun sameiginlegrar íslensk-grænlenskrar fiskveiðinefndar sem mun a.m.k. einu sinni á ári halda fundi um mál er varða sjávarútvegssamstarfið. Í samningnum eru ákvæði um að Ísland og Grænland skuli í framtíðinni vinna saman að málum er varða fiskirannsóknir, veðitækni og menntun á sviði sjávarútvegs. Þegar er í gildi samningur um gagnkvæmar heimildir til veiða á úthafskarfa og loðnu í lögsögum landanna. Í samningnum er gert ráð fyrir að slíkar gagnkvæmar veiðiheimildir nái til fleiri tegunda er fram líða stundir.

Sameiginlegir stofnar Íslands og Grænlands eru m.a. rækja, lúða, grálúða og karfi á svæðum milli Íslands og Grænlands. Þá eru einnig tengsl milli þorskstofnsins við Grænland og Ísland.

Í samningnum er kveðið á um að löndin skulu vinna saman að rannsóknum og nýtingu á þessum sameiginlegu stofnum. Þessi ákvæði um ráðstafanir varðandi sameiginlega stofna eru í samræmi við ákvæði Hafréttarsáttmálans og annarra alþjóðlegra samþykkta.

Ísland og Grænland hafa ásamt Noregi unnið að stjórnun loðnustofnsins við Ísland, Jan Mayen og Grænland um langa hríð. Þetta er þó í fyrsta sinn sem Ísland og Grænland gera samning sem staðfestir vilja landanna til beinnar samvinnu.

Á fundinum í Ilulissat lögðu ráðherrarnir áherslu á mikilvægi samningsins. Þeir voru sammála um að í framtíðinni verði reynt að vinna að sameiginlegum markmiðum landanna innan NAFO og NEAFC. Í samvinnu við Færeyjar verður reynt á árinu að ganga frá samkomulagi um stjórnun á grálúðu- og karfastofnunum á svæðinu.


Sjávarútvegsráðuneytið
9. júlí 1998

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum