Hoppa yfir valmynd
30. júlí 1998 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Reglugerð um viðbrögð við bráðamengun sjávar

Umhverfisráðherra hefur gefið út reglugerð um viðbrögð við bráðamengun sjávar. Markmið hennar er að samræma aðgerðir sem beita þarf þegar sjór og strendur mengast skyndilega vegna olíuslyss eða sambærilegra óhappa. Einnig er kveðið á um hvernig reyna skuli að draga úr tjóni, eða koma í veg fyrir hugsanlegt tjón vegna bráðamengunar eftir því sem kostur er.

Reglugerðin fjallar um ábyrgð og verksvið þeirra sem eiga að bregðast við bráðamengun sjávar og um gerð viðbragðsáætlana innan sem utan hafnarsvæða í samræmi við ákvæði laga um varnir gegn mengun sjávar nr. 32/1986.

Bráðamengun innan hafnarsvæða

Varðandi viðbrögð og búnað innan hafnarsvæða, þá er landinu skipt í fimm svæði eftir landshlutum og skal 3-5 manna svæðisráð hafa umsjón með rekstri, viðhaldi og endurnýjun mengunarvarnarbúnaðs í hverju þeirra. Ein aðalhöfn er í hverjum landshluta, en þar skulu vera a.m.k. 300 m af flotgirðingum og eitt upptökutæki. Aðalhafnir eru Reykjavík, Ísafjörður, Akureyri, Reyðarfjörður og Vestmannaeyjar. Í hverjum landshluta eru síðan 1-3 svæðishafnir, þar sem skulu vera a.m.k. 150 m af flotgirðingum, en í öðrum höfnum skal taka ákvörðun um viðbúnað eftir aðstæðum.

Svæðisráð skal koma upp viðbragðsáætlunum í hverri höfn í samvinnu við Hollustuvernd ríkisins, auk þess að sjá um skipun umsjónarmanns með mengunarvarnabúnaði. Mengunarvarnaráð hafna skal vera tengiliður milli svæðisráðanna og hlutaðeigandi eftirlitsaðila. Það skal skipað formönnum svæðisráða og fulltrúa Hollustuverndar ríkisins, sem jafnframt er formaður.

Í höfn þar sem bráðamengun hefur orðið ber hafnarstjóri ábyrgð á að aðgerðir gegn mengun hefjist og segir til um þegar þeim er lokið. Hafnarstjóri stjórnar aðgerðum í samráði við umsjónarmann mengunarvarnabúnaðarins.

Bráðamengun utan hafnarsvæða

Varðandi viðbrögð og búnað utan hafnasvæða, þá er kveðið á um að Hollustuvernd ríkisins, Siglingastofnun Íslands og Almannavarnir ríkisins skuli gera með sér skriflegt samkomulag um samvinnu, verkaskiptingu og viðbrögð við bráðamengun. Hollustuvernd skal sjá um gerð viðbragðsáætlana utan hafnarsvæða í samráði við Almannavarnir ríkisins. Tilkynna skal um bráðamengunaróhöpp til stjórnstöðvar Landhelgisgæslu Íslands, sem kallar síðan til viðkomandi heilbrigðisfulltrúa eða vakthafandi aðila innan Hollustuverndar ríkisins, eftir atvikum.

Hollustuvernd ríkisins skal skipa verkefnisstjóra mengunarvarna, sem ákveður í samráði við umhverfisráðuneytið hvenær hefja skuli aðgerðir gegn mengun og segir til um hvenær þeim er lokið. Vettvangsaðgerðir skulu eftir því sem kostur er taka mið af fyrirliggjandi viðbragðsáætlunum og neyðarskipulag Almannavarna ávallt notað þegar ætla má að almenningi stafi bráð hætta af menguninni.

Fréttatilkynning nr. 31/1998
Umhverfisráðuneytið

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta