Sala á Fjárfestingarbanka atvinnulífsins undirbúin
Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti
Sjávarútvegsráðuneyti
Nr. 12/1998
Iðnaðarráðherra og sjávarútvegsráðherra, sem saman fara með eignarhlut ríkisins í Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf. (FBA), hafa samþykkt að fela Framkvæmdanefnd um einkavæðingu að annast undirbúning sölu hlutafjár í FBA í nánu samráði við ráðuneytin og stjórnendur bankans og fari salan fram á þessu ári. Nefndin skal miða undirbúning sölunnar við að hlutabréf í FBA verði boðin almenningi til kaups í mjög dreifðri sölu og að erlent fjármálafyrirtæki verði fengið til að verðmeta bankann.
Ráðherrarnir munu innan skamms taka ákvörðun að hve miklu leyti sú heimild laga um stofnun FBA nr. 60/1997 að selja allt að 49% hlutafjár í bankanum verði nýtt í þessum áfanga og hvernig staðið skuli að sölu þeirra bréfa sem enn verða í eigu ríkisins að þessum áfanga loknum. Sem lið í undirbúningi þeirrar ákvörðunar hafa ráðherrarnir fallist á að hefja könnunarviðræður við Samband íslenskra sparisjóða um kaup sparisjóðanna á öllu hlutafé í Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf., en sambandið hafði óskað eftir viðræðunum. Viðræðunum er ætlað að leiða nánar í ljós möguleika sparisjóðanna á slíkum kaupum og hugsanlega samningsskilmála.
Reykjavík, 7. ágúst 1998