Hoppa yfir valmynd
14. ágúst 1998 Matvælaráðuneytið

Ár hafsins - Fréttatilkynning 10.02.98

Ár hafsins



Ríkisstjórnin hefur samþykkt tillögur starfshóps sjávarútvegsráðherra um hvað skuli gert hér á landi í tilefni af ákvörðun Sameinuðu þjóðanna um að árið 1998 verði ár hafsins.
Tillögurnar miða að því að fá sem flesta til að horfa til hafs og velta fyrir sér mikilvægi hafsins í umhverfi okkar og sem forðabúrs. Mikilvægt þykir að vekja áhuga barna og ungmenna, en einnig er reynt að draga athygli almennings að hafinu.
    • Lagt er til að 12. september verði sérstaklega helgaður hafinu og er þeim tilmælum beint til fyrirtækja, stofnana og safna sem tengjast hafinu að hafa opið hús fyrir almenning í tilefni dagsins.
    • Námsgagnastofnun var fyrir áramót veittur styrkur til að vinna að gerð kennsluleiðbeininga fyrir grunnskóla um námsefni sem tengist hafinu og lífríki þess. Kennarar ættu að fá þær í hendur í apríl og er hvatt til að skólar skipuleggi þemavikur eða þemadaga um hafið í vor eða haust.
    • Sjávarútvegsstofnun Háskólans hefur verið falið að skipuleggja röð almenningsfyrirlestra um málefni hafsins. Sá fyrsti verður laugardaginn 21. febrúar n.k. þar sem Jakob Jakobsson forstjóri Hafrannsóknastofnunar flytur erindið - Skyggnst í djúpin. Fimm fyrirlestrar verða í vor og ef vel tekst til, verður þráðurinn tekinn upp aftur í haust.
    • Efnt verður til samkeppni um veggspjald í samvinnu við Félag íslenskra teiknara. Verðlaunaspjaldið verður jafnframt gefið út sem póstkort og því dreift endurgjaldslaust. Veggspjaldið verður notað við kynningu viðburða á ári hafsins og dreift í alla skóla.
    • Sjávarútvegsráðuneyti og umhverfisráðuneyti ætla að láta útbúa kynningarefni fyrir almenning um nýtingu lifandi auðlinda hafsins og aðgerðir til að draga úr mengun þess.
    • Sjávarútvegsráðuneytið og sjávarútvegsdeild Háskólans á Akureyri efna til ráðstefnu síðari hluta vetrar eða í vor um virkjun mannauðs. Þar verður reynt að varpa ljósi á það hvaða menntunar verði krafist í sjávarútveginum á nýrri öld.
    • Sjávarútvegsráðherrar Íslands, Grænlands og Færeyja halda um miðjan apríl ráðstefnu á Íslandi um ábyrga fiskveiðistjórnun. Ráðstefnan er haldin að frumkvæði Íslandsdeildar Vestnorrænu þingmannanefndarinnar. Stefnt er að því að í tengslum við ráðstefnun verði haldin sýning á hugmyndum sem bárust í samkeppi um veggspjald og verðlaun fyrir besta veggspjaldið veitt þar.

Starshópurinn vinnur að frekari tillögum. Er þar einkum hugað að tveimur þáttum, með hvaða hætti Íslendingar geta haft áhrif á þá neikvæðu umræðu sem víða fer fram um málefni hafsins og sjávarútveginn sem atvinnugrein. Hópurinn telur í því sambandi mikilvægt að tillögu sjávarútvegsráðherra um upplýsingaveitu sjávarútvegsins verði sem fyrst komið í framkvæmd. Þá verður hugað að öðrum verkefnum sem kæmu til framkvæmda síðari hluta ársins og verður þess gætt að viðburðir verði ekki bundnir við Reykjavíkursvæðið.
Reykjavík 10. febrúar 1998

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum