Nr. 77, 27. ágúst 1998:Í dag undirritaði Helgi Ágústsson ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins fyrir Íslands hönd Rómarsamþykktina um alþjóðlega sakamáladómstólinn.
Í dag undirritaði Helgi Ágústsson ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins fyrir hönd Halldórs Ásgrímssonar utanríkisráðherra Rómarsamþykktina um alþjóðlega sakamáladómstólinn sem samþykkt var á ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Róm 17. júlí sl. Dómstóllinn, sem hafa mun aðsetur í Haag, hefur það hlutverk að dæma í málum einstaklinga sem grunaðir eru um alvarlegustu glæpi gegn mannkyninu, þ.e. hópmorð, glæpi gegn mannúð, stríðsglæpi og glæpi gegn friði.
Utanríkisráðherra hefur lýst stofnun alþjóðlega sakamáladómstólsins sem einu mikilvægasta framlagi til aukins frelsis, réttlætis, mannréttindaverndar og friðar í heiminum frá stofnun Sameinuðu þjóðanna, en unnið hefur verið að stofnun slíks dómstóls allt frá lokum síðari heimsstyrjaldarinnar. Utanríkisráðherra leggur áherslu á að Ísland fullgildi Rómarsamþykktina hið fyrsta og verður á komandi haustþingi lögð fram þingsályktunartillaga þar sem leitað verður eftir heimild Alþingis til þess að fullgilda samþykktina.
Samþykktin, sem mun liggja frammi til undirritunar í Róm til 17. október nk. og síðan í New York til 31. desember 2000, öðlast gildi tveimur mánuðum eftir að 60 ríki hafa fullgilt hana.
Hópmorð, glæpir gegn mannúð og stríðsglæpir eru skilgreind í Rómarsamþykktinni, en kveðið er á um að dómstóllinn skuli ekki beita lögsögu sinni að því er glæpi gegn friði varðar fyrr en skilgreining á þeim liggur fyrir.
Dómstóllinn hefur sjálfvirka lögsögu í málum er undir hann heyra, þ.e. óháða sérstöku samþykki viðkomandi ríkja. Skilyrði er þó að annaðhvort þegnríki sakbornings eða ríkið þar sem hið meinta brot var framið sé aðili að samþykktinni.
Aðildarríki er heimilt að undanþiggja sig lögsögu dómstólsins að því er stríðsglæpi varðar til allt að sjö ára frá því að samþykktin öðlast gildi gagnvart því.
Sérstakur saksóknari starfar samkvæmt samþykktinni og getur hann að eigin frumkvæði eða eftir tilvísun frá aðildarríki eða öryggisráði Sameinuðu þjóðanna hafist handa við að rannsaka og gefa út ákæru í málum er undir dómstólinn heyra.
Samkvæmt samþykktinni er óheimilt að hefja eða halda áfram rannsókn eða saksókn í máli á eins árs tímabili eftir að öryggisráðið hefur beint ósk þar að lútandi til dómstólsins í formi ályktunar samkvæmt VII. kafla sáttmála Sameinuðu þjóðanna.
Lögsaga alþjóðlega sakamáladómstólsins er til fyllingar lögsögu einstakra ríkja til að saksækja og dæma í þeim málum sem hér um ræðir. Lögsaga dómstólsins verður því aðeins virk að viðkomandi ríki hafi sökum skorts á getu eða vilja látið undir höfuð leggjast að grípa til viðeigandi ráðstafana.
Alþjóðlegi sakamáladómstóllinn er varanlegur og hefur almenna lögsögu. Hann er því frábrugðinn alþjóðastríðsglæpadómstólunum í málefnum fyrrum Júgóslavíu og Rúanda sem hafa takmarkaða lögsögu bæði í tíma og rúmi.
Utanríkisráðuneytið
Reykjavík, 26. ágúst 1998,