Síldveiðar við Noreg.
Fréttatilkynning
Síldveiðar við Noreg.
Samkvæmt samkomulagi við norsk stjórnvöld hafa íslensk skip leyfi til veiða á 9.000 lestum af síld í norskri fiskveiðilandhelgi norðan 62°N á yfirstandandi ári. Ráðuneytið hefur ákveðið að eftirfarandi reglur gildi um úthlutun þessa magns.
1. Veiðar eru háðar sérstöku leyfi Fiskistofu og skulu umsóknir hafa borist fyrir 15. september 1998.
2. Aðeins þau síldveiðiskip, sem á þessu ári hafa veitt hafa 90% af þegar úthlutuðum veiðiheimildum í norsk-íslenska síldarstofninum eiga kost á að taka þátt í þessum veiðum. Þá koma ekki til greina skip sem leyfi fengu í norskri fiskveiðilandhelgi á síðustu vertíð.
3. Miðað er við það að hvert skip fari eina veiðiferð.
4. Berist það margar umsóknir, að hvert skip geti vegna leyfilegs heildarmagns ekki komið með fullfermi að landi, verður dregið úr umsóknum uns sameiginleg burðargeta þeirra skipa sem dregin eru út nemur sem næst 9.000 lestum. Þau skip sem þannig eru dregin út fá leyfi en önnur ekki.
Sjávarútvegsráðuneytið
9. september 1998.
9. september 1998.