Nr. 078, 14. september 1998:APAG fundur á Egilsstöðum 17.-18. september 1998.
Fréttatilkynning
frá utanríkisráðuneytinu
Nr. 078.
Dagana 17.-18. september n.k. verður haldinn fundur á Egilstöðum í stefnumótunarhópi Atlantshafsbandalagsins (Atlantic Policy Advisory Group) sem hittist einu sinni á ári í einhverju aðildarríkjanna. Formaður hópsins, dr. Klaus-Peter Klaiber, yfirmaður stjórnmáladeildar Atlantshafsbandalagsins kemur hingað til lands miðvikudaginn 16. september. Þann dag fundar hann með embættismönnum í utanríkisráðuneytinu, formanni utanríkismálanefndar Alþingis og formanni sendinefndar Íslands hjá þingmannasamtökum Atlantshafsbandalagsins. Loks heldur hann fyrirlestur um samskipti Rússlands og NATO í Skála, Hótel Sögu kl.17.15 á vegum Samtaka um vestræna samvinnu og Varðbergs. Í lok fyrirlestrarins verður haldinn blaðamannafundur í Skála og er dr. Klaiber reiðubúinn að svara spurningum um starfsemi Atlantshafsbandalagsins almennt og viðfangsefni fundarins á Egilsstöðum.
Utanríkisráðuneytið,
Reykjavík, 14. september 1998.