Nr. 80, 15. september 1998: Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra hvetur alla stjórnmálaleiðtoga í Albaníu til að sýna stillingu á viðsjárverðum tímum.
Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra hvetur alla stjórnmálaleiðtoga í Albaníu til að sýna stillingu á viðsjárverðum tímum, standa vörð um réttarskipan og styrkja friðsamlegt og lýðræðislegt stjórnmálastarf.
Utanríkisráðherra fordæmir jafnframt morðin á Azem Hajdari, þingmanni albanska lýðræðisflokksins og leiðtoga stjórnarandstöðunnar, og á lífverði hans. Ennfremur sendir hann ættingum hinna látnu samúðarkveðjur. Þá leggur utanríkisráherra áherslu á að albönsk yfirvöld sjái til þess að lögum verði komið yfir þá, sem að þessum voðaverkum stóðu.
Utanríkisráðuneytið,
Reykjavík, 15. september 1998.