Hoppa yfir valmynd
18. september 1998 Matvælaráðuneytið

Ársfundur NAFO. 18.09.98

Fréttatilkynning


Ársfundi Norðvestur-Atlantshafsfiskveiðistofnunarinnar, NAFO, sem staðið hefur yfir í Lissabon í Portúgal frá 14. september lauk í dag.

Á fundinum var m.a. rætt um stjórn rækjuveiða á Flæmingjagrunni. Meiri bjartsýni gætir nú en á síðustu árum um ástand rækjustofnsins og lögðu vísindamenn til að heildarveiðin verði 30.000 á næsta ári.

Varðandi stjórnun rækjuveiðanna varð niðurstaðan sú að halda áfram sóknarstýringu sem byggir á úthlutun veiðidaga til hvers lands. Af hálfu Íslands var ítrekuð andstaða við þetta fyrirkomulag þar sem það gæfi ekki kost á að mæta nauðsynlegum veiðitakmörkunum með hagkvæmum hætti. Auk þess sem framkvæmd sóknarkerfisins á Flæmingjagrunni hefði verið afar ótrúverðug. Því var lýst yfir að Ísland myndi áfram ákvarða leyfilegan heildarafla íslenskra skipa með einhliða aflamarki og vakin athygli á að eðlilegt væri að endurskoða heildaraflaákvörðunina með hliðsjón af auknum afla á sóknareiningu. Leyfður heildarafli Íslendinga á þessu ári er 6.800 tonn samkvæmt ákvörðun íslenskra stjórnvalda, en því er spáð að heildarveiði allra þjóða verði um 28.000 lestir í ár.

Afstaða Íslands um að ákvarða heildarafla og skipta honum á milli aðildarríkja nýtur vaxandi stuðnings enda hefur komið í ljós að veiðistjórnun Íslendinga er mun skilvirkari en það fyrirkomulag að stjórna sókninni með dagatakmörkunum.

Tillaga frá Færeyingum um nokkra stækkun rækjuveiðisvæðisins til vesturs, sem Íslendingar studdu eindregið, náði nú fram að ganga og verður íslenskum skipum því heimilt að veiða á stærra svæði á næsta ári en hingað til.

Eftirlitsmál á NAFO-svæðinu voru áfram mjög til umræðu á fundinum, sérstaklega það fyrirkomulag að hafa eftirlitsmann í hverju skipi. Af hálfu Íslands og annarra rækjuveiðiþjóða var bent á að rækjuveiðar á Flæmingjagrunni krefðust ekki svo víðtæks og kostnaðarsams eftirlits. Niðurstaða fundarins var engu að síður að framlengja núverandi fyrirkomulag á eftirlitsmannakerfinu, sem komi til endurskoðunar eftir tvö ár. Jafnframt var ákveðið að taka upp gervihnattaeftirlit með öllum fiskveiðum á NAFO-svæðinu frá og með 1. janúar 2001. Íslendingar munu áfram leggja áherslu á það við endurskoðun eftirlits á NAFO-svæðinu, að nýjasta tækni sé hagnýtt til þess að auka skilvirkni og lækka kostnað.

Íslendingar hafa ekki tekið þátt í veiðum úr örðum stofnum en rækju á NAFO-svæðinu. Veiðar úr rækjustofninum á Flæmingjagrunni nema nú um helmingi allra veiða á svæðinu að magni til, en aðrir stofnar eru veiddir í litlu magni eða háðir veiðibanni vegna slæms ástands þeirra.
Sjávarútvegsráðuneytið
18. september 1998

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum