Hoppa yfir valmynd
28. september 1998 Utanríkisráðuneytið

Nr. 083, 28. september 1998:Fundur Halldórs Ásgrímssonar utanríkisráðherra og Kofi Annan framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna í New York.

Fréttatilkynning
frá utanríkisráðuneytinu



Nr. 083

Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra átti í dag fund með Kofi Annan framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna í aðalstöðvum samtakanna í New York.

Til umræðu voru málefni S.þ., þar með talið endurbætur á starfi þeirra en einkanlega var rætt um auðlindanýtingu og málefni hafsins og þróunaraðstoð.

Utanríkisráðherra upplýsti um aðstoð Íslendinga við ýmis ríki í Afríku í sjávarútvegi og þátttöku Íslands í starfi þróunarstofnanna S.þ. Hann lagði áherslu á mikilvægi sjávarútvegs fyrir efnahagslíf og fæðuöryggi þróunarríkjanna og gerði samstarf Íslands við Alþjóðabankann á sviði þróunarmála að sérstöku umtalsefni.

Kofi Annan þakkaði fyrir starf Íslands að málefnum S.þ., sérstaklega endurbótastarfið, og jafnframt fyrir framlag Íslands til efnahags-, félags- og þróunarmála.

Framkvæmdastjórinn gerði að umræðuefni áhrif hafréttarsáttmála S.þ. á íslenskt efnahagslíf og sagði að þar gætti hans í sinni jákvæðustu mynd. Hann lauk lofsorði á auðlindastjórnun Íslendinga og sagði mikilvægt að strandríki hefðu full yfirráð yfir sínum auðlindum.

Kofi Annan ræddi að lokum um ár hafsins og minntist á mikilvægi nýrrar skýrslu um málefni hafsins sem gerð hefur verið af sérstakri nefnd S.þ. undir forystu Mario Soares fyrrum forseta Portúgals. Skýrsla þessi var gerð í tilefni af ári hafsins af þessari nefnd. Efni hennar verður rætt sérstaklega á vettvangi Sameinuðu þjóðanna.



Utanríkisráðuneytið,
Reykjavík, 28. september 1998.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta