Neyðarvegabréf
Fréttatilkynning
Vegna tafa sem orðið hafa á afgreiðslu vegabréfa frá erlendum framleiðanda þeirra og óvenju mikillar útgáfu vegabréfa sl. sumar er nú svo komið að vegabréfabirgðir ráðuneytisins og einstakra lögreglustjóraembætta eru á þrotum. Ekki er von á nýrri sendingu vegabréfa fyrr en um miðjan næsta mánuð.
Vegna þessa hefur dómsmálaráðherra sent frá sér reglugerð um breytingu á reglugerð um íslensk vegabréf, nr. 169 22. apríl 1987, með síðari breytingum. Með reglugerð þessari er útgefendum íslenskra vegabréfa heimilað þegar sérstaklega stendur á að gefa út neyðarvegabréf til íslenskra ríkisborgara, sem gilda til ferðalaga um öll lönd og til heimkomu. Hámarks gildistími neyðarvegabréfa samkvæmt reglugerðinni er eitt ár.
Dómsmálaráðuneytið hefur lagt fyrir lögreglustjóra að framlengja öll vegabréf sem mögulegt er að framlengja, meðan ný sending vegabréfa hefur ekki borist. Ef ekki er unnt að framlengja eldra vegabréf af einhverjum sökum skal lögreglustjóri gefa út neyðarvegabréf, sbr. ofangreint.
Í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, 27. september 1998