Hoppa yfir valmynd
6. október 1998 Utanríkisráðuneytið

Nr. 088, 6. október 1998: Tíundi fundur EES-ráðsins í Lúxemborg.

Fréttatilkynning
frá utanríkisráðuneytinu


Nr. 088

Í dag var haldinn tíundi fundur EES-ráðsins í Lúxemborg. Í EES-ráðinu sitja utanríkisráðherrar EFTA/EES ríkjanna og aðildarríkja EES ásamt fulltrúum framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. Guðmundur Bjarnason, umhverfis- og landbúnaðarráðherra, sat fundinn fyrir Íslands hönd.

Á fundinum var EES-samningurinn til umræðu og var það samdóma álit fundarmanna að framkvæmd hans gengi vel. Þá var á fundinum lýst ánægju með samningaviðræður Evrópusambandsins við ný aðildarríki og bent á að stækkun ESB myndi einnig stækka og styrkja hið evrópska efnahagssvæði. Lögðu EFTA/EES-ríkin áherslu á að vera upplýst um gang samningaviðræðnanna til þess að þau hefðu möguleika á að koma sínum sjónarmiðum á framfæri varðandi þá þætti sem gætu haft áhrif á EES-samninginn. EFTA/EES ríkin fögnuðu nýlegri ákvörðun sameiginlegu EES nefndarinnar um niðurfellingu á heilbrigðiseftirliti á landamærum, sem skiptir útflytjendur sjávarafurða miklu máli.

Á fundinum lögðu ESB ríkin til að hafnar yrðu viðræður í sameiginlegu EES nefndinni um áframhaldandi framlög EFTA/EES ríkjanna til að jafna efnahagslegt misræmi á EES svæðinu. EFTA/EES ríkin lögðu hins vegar áherslu á að þróunarsjóður EFTA yrði lagður niður eins og EES samningurinn kveður á um. Niðurstaða fundarins var sú að málið yrði rætt áfram.

Ráðherra lagði áherslu á mikilvægi þess að hraða Schengen samningaviðræðunum og undirstrikaði hann mikilvægi þess að samningurinn öðlist gildi á sama tíma á Íslandi og í Noregi og hjá ESB ríkjunum. Áréttaði ráðherra nauðsyn þess að Ísland og Noregur taki áfram fullan þátt í mótun og töku ákvarðana nýrra Schengen gerða.

Í tengslum við ráðsfundinn var haldinn sérstakur fundur ráðherra EES-ríkjanna þar sem þeir skiptust á skoðunum um pólitísk málefni. Á þeim fundi var einkum rætt um ástandið í Kósóvó, friðarferlið fyrir botni Miðjarðarhafs, stöðu mála í Rússlandi og Albaníu og stækkun ESB. Guðmundur Bjarnason, umhverfis- og landbúnaðarráðherra, hafði framsögu um stöðu mála í Rússlandi.


Utanríkisráðuneytið,
Reykjavík, 6. október 1998.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta