Tilhögun sölu á Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf
Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti
Sjávarútvegsráðuneyti
Nr. 15/1998
Nú liggur fyrir ákvörðun iðnaðarráðherra og sjávarútvegsráðherra um hversu stóran hlut skuli selja í Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf. á þessu ári og hvernig almennri sölu skuli háttað.
Ákveðið hefur verið að fullnýta strax í fyrsta áfanga heimildir núgildandi laga til sölu á eignarhlut ríkissjóðs í bankanum, eða 49% hlutafjár. Fer salan fram í áskrift, með þeim hætti að hver áskrifandi geti skráð sig fyrir allt að 3,0 m.kr. að nafnverði. Jafnframt verði starfsmönnum bankans boðin áskrift að hlutafé á sérstökum kjörum.
Verði um umframáskrift að ræða í hinu almenna útboði skerðist hámarksfjárhæð sem hverjum áskrifanda er heimilt að kaupa fyrir. Verði eftirspurn eftir áskrift hins vegar ekki nægileg til að selja 49% hlutafjár með þessum hætti skal leita tilboða í þann hluta sem ekki selst, þó þannig að einstakir aðilar geti aðeins keypt hlutafé sem nemi allt að 3% hlutafjár í bankanum í slíkri sölu.
Framkvæmdanefnd um einkavæðingu hefur verið falið að undirbúa söluna á þessum grundvelli. Þannig mun hún m.a. gera tillögur um hvernig standa skuli að sölu til starfsmanna, tímasetningum sölunnar og gengi.
Auk þessa hefur verið ákveðið að stefna að því að selja það sem eftir stendur af hlut ríkisins fyrir mitt næsta ár ef aðstæður leyfa. Verður á næstunni leitað lagaheimildar í því skyni.
Reykjavík, 6. október 1998.