Nr. 91, 8. október 1998:Þann 1. og 2. október sl. stóð utanríkisráðuneytið fyrir fyrsta fundi CCMS-nefndar NATO á Íslandi. CCMS stendur fyrir
Nefnd Atlantshafsbandalagsins um vandamál nútíma samfélags
fundar á Íslandi í fyrsta sinn.
Þann 1. og 2. október sl. stóð utanríkisráðuneytið fyrir fyrsta fundi CCMS-nefndar NATO á Íslandi. CCMS stendur fyrir " Challenges of Modern Society ".
CCMS-nefndin var stofnuð 1969 í því skyni að stuðla að lausn hagnýtra vandamála, einkum á sviði umhverfismála, í aðildarríkjum NATO. Nefndin heldur tvo fundi árlega, annan í höfuðstöðvum NATO en hinn í einhverju aðildarríkjanna. Vaxandi áhersla á umhverfismál, innan NATO og í ríkjum er áður tilheyrðu Varsjárbandalaginu hefur aukið mikilvægi CCMS-nefndarinnar á liðnum árum.
CCMS-nefndin hefur haft lykilhlutverki að gegna í mörgum samstarfsverkefnum með þessum ríkjum. Meðal þeirra er mat á afleiðingum þess að kjarnaofnum úr rússneskum kafbátum var varpað í Karahafið við strendur Novaya Zemlya svo og mat á flutningi geislavirkra efna um fljót í Síberíu í Íshafið. Ísland hefur tekið virkan þátt í þessum verkefnum sem nú er lokið.
Á fundinum í Reykjavík var einkum fjallað um samstarfsverkefni við ríkin er áður tilheyrðu Varsjárbandalaginu og þá sérstaklega við Rússland. Þar má nefna hvernig staðið skuli að hreinsun lands er áður var notað undir herstöðvar.
Formaður CCMS-nefndarinnar er Dr. Y. Sillard, aðstoðarframkvæmdastjóri NATO fyrir vísinda- og umhverfismál.
Fulltrúi Íslands í CCMS-nefndinni er Sigurður M. Magnússon, forstöðumaður Geislavarna ríkisins.
Utanríkisráðuneytið,
Reykjavík, 8. október 1998.