Nr. 93, 9. október 1998:Aðalfundur Íslensk-ameríska verslunarráðsins í Washington DC, 9. október 1998.
Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra, flutti ræðu á aðalfundi Íslensk-ameríska verslunarráðsins sem haldinn var í Washington DC í Bandaríkjunum í dag.
Í ræðu sinni minntist ráðherra á mikilvægi samskipta Íslands og Bandaríkjanna. Tvíhliða varnarsamningur þjóðanna væri grundvöllur mikilla og náinna samskipta þeirra. Leiðir þjóðanna hafi ennfremur oftar en ekki legið saman á alþjóðlegum vettvangi. Þessi nánu tengsl hafi m.a. haft jákvæð áhrif á þróun viðskipta þeirra í milli.
Utanríkisráðherra sagði aðild Íslands að Sameinuðu þjóðunum og NATO vera hornstein íslenskrar utanríkisstefnu. Á sviði alþjóðaviðskipta og efnahagsmála hefði stefna Íslands sömuleiðis verið að tryggja aðgang íslenskra fyrirtækja að erlendum mörkuðum með aðild að OECD, GATT/WTO, EFTA og síðast EES. Stefnu Íslands til framtíðar sagði utanríkisráðherra vera þá að tryggja áframhaldandi efnahagslegan stöðugleika með enn frekara markaðsaðgengi íslensks atvinnulífs að erlendum mörkuðum.
Utanríkisráðherra lagði áherslu á mikilvægi frjálsari viðskipta á næstu árum. Ný samningalota Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar – WTO – þyrfti að ná til viðskipta með þjónustu og til erlendra fjárfestinga þar sem jafnræðis meðal fyrirtækja væri gætt. Það kom fram í máli utanríkisráðherra að þrátt fyrir tímabundna efnahagserfiðleika í ríkjum suðaustur Asíu og í Rússlandi mætti slíkt ekki leiða til nýrra hafta í alþjóðlegum viðskiptum. Hlutverk alþjóðlegra stofnana sem Ísland væri aðili að væri að tryggja að slíkt gerðist ekki og um leið að stuðla að því að fyrirtækjum væri ekki mismunað á mörkuðum.
Utanríkisráðuneytið,
Reykjavík, 9. október 1998.