Nr. 094, 13. október 1998:Fundur Halldórs Ásgrímssonar með dr. Hans van Ginkel, rektor Háskóla Sameinuðu þjóðanna.
Fréttatilkynning
frá utanríkisráðuneytinu
Nr. 094
Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra átti í dag fund með dr. Hans van Ginkel, rektor Háskóla Sameinuðu þjóðanna.
Hans van Ginkel heimsækir Ísland í tilefni af 20 ára afmælisráðstefnu Jarðhitaskóla Háskóla S.þ. á Íslandi. Í fylgd með honum er dr. Abraham Besrat, vararektor H.S.þ.
Á fundinum var rætt um starfsemi Háskóla S.þ. og þróunarsamvinnu. Utanríkisráðherra lagði áherslu á mikilvægi samvinnu Íslendinga við H.S.þ. eins og starfsemi hinna tveggja skóla á Íslandi, Jarðhitaskólans og Sjávarútvegsskólans, sem hóf starfsemi sína í haust, sýndi vel. Utanríkisráðherra vék að mikilvægi þessarar samvinnu í þróunarsamvinnu Íslendinga. Hann lýsti áhuga sínum á því að kanna frekari möguleika í samvinnu við H.S.þ. Hann kvað einnig mikilvægt að styrkja þátttöku Íslands í starfi annarra þróunarstofnana Sameinuðu þjóðanna.
Ráðherra ræddi ennfremur um tvíhliða þróunarsamvinnu Íslendinga í suðurhluta Afríku og lýsti ánægju sinni með árangurinn af því starfi.
Háskóli S.þ. hefur aðalstöðvar sínar í Tokyó, en stendur að starfsemi í samvinnu við háskóla og stofnanir víða um heim.
Meðfylgjandi er ávarp utanríkisráðherra á afmælisráðstefnu Jarðhitaskólans.
Utanríkisráðuneytið
Reykjavík, 13. október 1998.