Hoppa yfir valmynd
19. október 1998 Utanríkisráðuneytið

Nr. 096, 19. október 1998:Viðskiptafulltrúi í sendiráðinu í París veitir viðtöl á Íslandi.

Fréttatilkynning
frá utanríkisráðuneytinu



Nr. 096

Unnur Orradóttir Ramette sem er fulltrúi viðskiptaþjónustu utanríkisráðuneytisins (VUR), í Frakklandi er nú stödd hér á landi. Hún verður á Sauðárkróki miðvikudaginn 21. október, á Akureyri föstudaginn 23. október og í Reykjavík mánudaginn 26. október. Unnur mun hitta fulltrúa fyrirtækja á hverjum stað sem hugsanlega gætu nýtt sér þjónustu sendiráðsins í Frakklandi og einnig sinna fyrirspurnum vegna annarra umdæmislanda sendiráðsins sem eru: Ítalía, Spánn og Portúgal. Heimsókn hennar er fyrst og fremst hugsuð til kynningar á þjónustu viðskiptafulltrúanna og felur ekki í sér neina kvöð fyrir fyrirtæki um að láta vinna fyrir sig ákveðin verkefni.

Það hefur sýnt sig að nálægð við hugsanlega markaði og upplýsingar frá sérmenntuðu fólki sem staðsett er í markaðslöndum fyrirtækja hafa skilað miklum árangri fyrir þau. Slíkar upplýsingar spara ómælda vinnu og eru markvissar vegna nálægðar og kunnugleika viðskiptafulltrúanna á aðstæðum á sínu svæði.

VUR leggur áherslu á að þetta er þjónusta við öll þau fyrirtæki sem eftir henni óska, aðlöguð að þörfum hvers um sig. Grunnupplýsingar s.s. um markaðsaðstæður, lönd, tolla og innflutningsskilmála eru veittar án endurgjalds en auk þess taka viðskiptafulltrúarnir að sér að vinna eða afla sértækra upplýsinga fyrir hvert fyrirtæki gegn mjög vægu gjaldi. Hér getur verið um að ræða markaðsupplýsingar eða kannanir, aðstoð við að koma á samböndum milli viðskiptaaðila, aðstoð við fyrirtækjaheimsóknir og stofnun fyrirtækja á erlendri grundu, svo eitthvað sé nefnt.

Þau fyrirtæki sem hafa hug á að hitta Unni Orradóttur Ramette, geta haft samband við viðskiptaþjónustu utanríkisráðuneytisins í síma 560 9930 til að bóka viðtalstíma.




Utanríkisráðuneytið,
Reykjavík, 19. október 1998.








Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta