Hoppa yfir valmynd
4. nóvember 1998 Utanríkisráðuneytið

Nr. 104, 4. nóvember 1998: Varaformennska Íslands í Evrópuráðinu.

Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra sat í dag utanríkisráðherrafund Evrópuráðsins í Strassborg, Frakklandi. Á fundinum tók Ísland við varaformennsku í Evrópuráðinu fyrir næsta hálfa árið. Í maímánuði á næsta ári á Evrópuráðið fimmtíu ára afmæli og þá mun Ísland taka við formennsku í ráðinu í fyrsta sinn. Aðildarríki Evrópuráðsins eru nú fjörutíu talsins og hefur farið ört fjölgandi á undanförnum árum.

Á dagskrá fundar utanríkisráðherranna var m.a. stjórnmálaá standið í suð-austur Evrópu, einkum í Kósóvó og Albaníu. Einnig fjölluðu ráðherrarnir um skýrslu hinna svokölluðu vísu manna um innra skipulag og starfshætti Evrópuráðsins, sem lögð var fram á fundinum.

Í framsögu sinni lagði utanríkisráðherra sérstaka áherslu á að öll aðildarríki ráðsins stæðu við þær skuldbindingar, sem aðild hefði í för með sér, þ.m.t. um rétt minnihlutahópa, lýðræði og reglur réttarríkis. Stefna stjórnvalda í Belgrad gagnvart íbúum Kósóvó, sem flestir eru af albönskum uppruna, sýndi bersýnilega að þau héldu ekki slíkar reglur í heiðri og því væri ótímabært að fallast á aðild Sambandslýðveldisins Júgóslavíu að Evrópuráðinu. Einnig lagði utanríkisráðherra áherslu á hlutverk Evrópuráðsins við að stuðla að stjórnmálalegum stöðugleika í Albaníu.

Utanríkisráðherra lýsti ánægju sinni með skýrslu hinna svokölluðu vísu manna og áréttaði mikilvægi hennar fyrir frekari umræðu um skipulag og þróun Evrópuráðsins. Hann lýsti einnig stuðningi sínum við aukið samstarf og samráð Evrópuráðsins við Evrópusambandið (ESB) og Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu (ÖSE) um varðveislu mannréttinda og eflingu lýðræðis í Evrópu.

Utanríkisráðherrarnir lögðu áherslu á mikilvægi eftirlitshlutverks Evrópuráðsins með skuldbindingum aðildarríkjanna. Í því sambandi fögnuðu þeir nýrri skipan Mannréttindadómstóls Evrópu, sem tók til starfa í Strassborg í gær.

Utanríkisráðherra undirritaði einnig í dag endurskoðaða gerð félagsmálasáttmála Evrópu frá 3. maí 1996 og samning um refsilöggjöf vegna verndunar umhverfis (Protection of Environment through Criminal Law), sem opnaður var til undirritunar í dag. Jafnframt afhenti utanríkisráðherra fullgildingarskjöl vegna Evrópusamningsins um málefni þátttakenda í málflutningi fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu frá 5. mars 1996 og vegna bókunar nr. 6 við almennan samning um forréttindi og friðhelgi Evrópuráðsins, einnig frá 5. mars 1996.

Utanríkisráðuneytið,
Reykjavík, 4. nóvember 1998.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta