Hoppa yfir valmynd
12. nóvember 1998 Matvælaráðuneytið

Sóknarfæri EES-samningsins

Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti
Nr. 18/1998


    Samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið hefur nú verið í gildi frá ársbyrjun 1994 og hefur hann skilað sér í umtalsverðum og margbreytilegum ávinningi fyrir íslenskt samfélag. Með EES-samningnum fengu Íslendingar ekki einungis aðild að frelsi í vöru- og þjónustuviðskiptum, fólksflutningum og fjármagnshreyfingum milli landa, heldur einnig margvíslegum samstarfsáætlunum og verkefnum.
    Þessi verkefni ná til ólíkra sviða m.a. lítilla og meðalstórra fyrirtækja, upplýsingaþjónustu, rannsókna og þróunar, ferðaþjónustu, menntamála og starfsþjálfunar, æskulýðsmála, orkumálefna, menningar og lista, heilbrigðismálefna og öryggis á vinnustöðum og félags- og atvinnumála. Í sumum tilvikum er um að ræða samstarfsverkefni, þ.e. að nokkra þjóðir þurfa að vinna sameiginlega að viðkomandi verkefni. Í öðrum tilvikum gilda aðrar reglur sem þó eru mismunandi allt eftir áætlunum eða verkefnum hverju sinni. Miklir möguleikar felast á þessum sviðum EES-samningsins sem mikilvægt er að einstaklingar, fyrirtæki og samtök nýti sér eins og kostur er. Þessi tækifæri ber okkur að nýta og stuðla þannig að aukinni framþróun, samkeppnishæfni og bættum lífskjörum.
    Vegna þessa tóku iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti, Vinnuveitendasamband Íslands og Euro Info skrifstofan saman yfirlit yfir flestar áðurnefndar áætlanir og verkefni EES-samningsins á þessu sviði.
    Markmið þessa yfirlits er að auðvelda íslenskum fyrirtækjum, einstaklingum, félagasamtökum sem og stjórnvöldum aðgang að upplýsingum um þessi verkefni og hvetja þau til þátttöku í þeim.
    Verkið var unnið í samráði við ráðuneyti og stofnanir auk sendiráðsins í Brussel. Það samanstendur af þremur megin þáttum:
    · gagnagrunni aðgengilegum á alnetinu,
    · almennum yfirlitsbæklingi og
    · einblöðungum sem lýsa einstaka áætlunum og verkefnum.
    Styrkleiki þessa verkefnis er að gagnagrunnurinn verður uppfærður um leið og breytingar gerast í viðkomandi áætlunum og verkefnum. Með því verður tryggt að ávallt verði aðgangur að nýjustu upplýsingum á þessu sviði.
    Nánari kynning á verkefninu fer fram í Perlunni 13. - 15. nóvember hjá Euro Info skrifstofunni.
    Það er von aðstandenda að framtakinu að því verði vel tekið og einstaklingar, fyrirtæki og samtök geti þannig nýtt sér í auknum mæli þau tækifæri sem EES-samningurinn býður upp á.


    Reykjavík, 12. nóvember 1998


    Hafa samband

    Ábending / fyrirspurn
    Ruslvörn
    Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

    Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

    Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta