Hoppa yfir valmynd
19. nóvember 1998 Matvælaráðuneytið

Skýrsla um stuðning við atvinnurekstur kvenna

Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti
Nr. 19/1998


Í samkeppnislöndum Íslands er víða lögð mikil áhersla á að auka veg kvenna í fyrirtækjarekstri og stjórnun. Sérstaða "kvennafyrirtækja" er almennt viðurkennd og algengt er að skipulagðar séu sérstakar stuðningsaðgerðir sem taka mið af þörfum kvenna. Iðnaðar- og viðskiptaráðherra skipaði í janúar 1997 nefnd, sem falið var að kanna hvort þörf væri á sérstökum stuðningi við atvinnurekstur kvenna hérlendis og gera tillögur til ráðuneytisins ef svo væri.

Nefndin hefur nú lokið störfum og er niðurstaða hennar að stuðnings sé þörf. Við mat nefndarinnar var aðallega stuðst við úrtakskönnun sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands framkvæmdi fyrir nefndina, erlendar heimildir og upplýsingar um stuðningsaðgerðir hérlendis.

Helstu niðurstöður nefndarinnar voru eftirfarandi:
  • Konur reka ekki nema um 18% íslenskra fyrirtækja og eru þau hlutfallslega flest á sviði verslunar og þjónustu. Fæstir stuðningsaðilar atvinnurekstrar styðja fyrirtæki í verslun og þjónustu þar sem konur eru hlutfallslega flestar.
  • Félagslegar aðstæður kvenna vegna fjölskylduábyrgðar eru veigamesta ástæða þess að konur standa verr að vígi gagnvart eigin atvinnurekstri en karlar. Vegna afstöðu sinnar til fjölskyldunnar eru konur hræddari við að taka fjárhagslega áhættu en karlar og þær eru tregari til þess að veðsetja heimili sín til að fjármagna atvinnurekstur.
  • Heildarvinnutími kvenna sem stunda eigin atvinnurekstur er langur. Rúmlega 40% vinna 60-79 klst. á viku og 30% vinna 80 klst. eða meira.

Helstu tillögur nefndarinnar eru:
  • Komið verði á fót miðstöð fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki (LMF) sem m.a. sinnir eftirfarandi verkefnum: Upplýsingaþjónustu um atvinnurekstur, vera ráðgefandi fyrir stjórnvöld um stuðningsaðgerðir við atvinnurekstur, hafa yfirlit yfir þau stuðningsúrræði sem í boði eru á hverjum tíma, hafa umsjón með gerð fræðsluefnis um LMF og tengslum við skóla og aðrar menntastofnanir.
  • Sérstakur stuðningur verði innan upplýsingamiðstöðvar LMF við atvinnurekstur kvenna. Gert verði ráð fyrir mismunandi þörfum fyrirtækja kvenna s.s. eftir atvinnugrein og stærð. Gefinn verði sérstakur gaumur að stöðu atvinnurekstrar kvenna á forsendum félagslegrar stöðu og gilda sem konur standa fyrir. Tryggt sé að sérstakir starfsmenn sérhæfi sig í atvinnurekstri kvenna og ráðgjöf til þeirra. Greinum þar sem konur eru fjölmennastar verði gefið aukið vægi og tekið sérstakt mið af þeim við verkefnaval. Konur séu hvattar sérstaklega til að hasla sér völl í hefðbundnum karlagreinum atvinnurekstrar. Konum standi til boða sérstök námskeið sem taki mið af mismunandi stöðu og stærð fyrirtækja þeirra.
  • Komið verði á fót tengslaneti fyrir konur í atvinnurekstri með fjárstuðningi stjórnvalda sem tryggi starfrækslu þess fyrstu árin. Starfsemin verði m.a. fólgin í útgáfu fréttabréfa, námskeiða- og fundahaldi og annarri fræðslu- og upplýsingastarfsemi. Markmiðið er að efla samvinnu og samstöðu kvenna í atvinnurekstri meðal annars með það fyrir augum að þær myndi áhugaverðan markhóp fyrir banka og aðrar lánastofnanir.
  • Efla þarf Lánatryggingasjóð kvenna þar sem konur í atvinnurekstri taka síður fjárhagslega áhættu en karlar. Lánatryggingasjóður kvenna tekur mið af þessum viðhorfum og horfir í ríkara mæli til arðsemi viðskiptahugmynda og trygginga í þeim en til fasteignaveða.


Reykjavík, 19. nóvember 1998



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum