Hoppa yfir valmynd
23. nóvember 1998 Matvælaráðuneytið

18. ársfundur Norðaustur Atlantshafsstofnunarinnar (NEAFC). 23.11.98

Fréttatilkynning



Síðastliðinn föstudag lauk 18. ársfundi Norðaustur Atlantshafsstofnunarinnar (NEAFC) í London.

Á fundinum var ákveðið að stjórnun á úthafskarfaveiðum á árinu 1999 verði með sama hætti og í ár. Í því felst að heildarveiðiheimildir verði 153 þúsund tonn, sem skiptast með eftirfarandi hætti: Danmörk (fh.Grænlands og Færeyja) fær 40 þúsund tonn í sinn hlut, Ísland 45 þúsund tonn, ESB 23 þúsund tonn, Rússland 36 þúsund tonn, Noregur 6 þúsund tonn og Pólland 1 þúsund tonn. Önnur ríki fá 2 þúsund tonn. Rússland greiddi atkvæði gegn þessari samþykkt og lýsti yfir að henni yrði mótmælt.

Sendinefnd Íslands lagði áherslu á að stofnunin viðurkenndi að á því svæði sem stjórnunin nær til er veitt úr tveimur karfastofnum, hinum eiginlega úthafskarfastofni og djúpkarfastofni, og að stjórna eigi veiðum úr hvorum stofninum fyrir sig. Önnur aðildarríki féllust ekki á þetta sjónarmið. Almennt var þó viðurkennt að margt benti til að svo væri og að frekari rannóknir séu nauðsynlegar. Ennfremur lagði Ísland áherslu á að ekki sé ásættanlegt að auka veiðiheimildirnar enn frekar en orðið er, þó það gæti orðið til að leysa vandamál varðandi skiptingu þeirra.

Á fundinum var skipting makrílstofnsins einnig á dagskrá. Ekki náðist samkomulag um að leggja fram tillögu á fundinum og var málinu frestað, þar til á aukafundi NEAFC sem haldinn verður 8. og 9. febrúar á næsta ári.

NEAFC samþykkti að stjórnun veiða norsk-íslenska síldarstofninum á alþjóðlegu hafsvæði úr árið 1999 verði með sama hætti og í ár. Vinnu við að fjalla um leiðir til að skipta veiðum úr kolmunnastofninum á milli aðila verður haldið áfram, og er reiknað með að ákvörðun verði tekin á næsta ársfundi NEAFC.

Stofnunin, sem hefur verið vistuð hjá breskum sjávarútvesgsyfirvöldum, mun opna eigin skrifstofu í London 1. mars 1999. Einnig var samþykktur rammasamningur við Alþjóðahafrannsóknaráðið (ICES) um þjónustu á rannsóknasviði.

Að lokum samþykkti NEAFC reglur um viðbrögð við veiðum skipa sem ekki eru aðilar að stofnuninni, og að þær muni verða hluti af eftirlitsreglum stofnunarinnar sem taka gildi 1. júlí 1999. Í þeim felast samræmdar aðgerðir gegn veiðum skipa frá löndum sem ekki eru aðilar að stofnuninni, m.a. löndunarbann.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum