Yfirlit um eftirlitshlutverk menntamálaráðuneytisins
Eftirlitshlutverk menntamálaráðuneytis
Eftirlitshlutverk menntamálaráðuneytisins grundvallast á eftirfarandi lögum og reglugerðum:
Lög nr. 78/1994 um leikskóla, reglugerð nr. 225/1995 um starfsemi leikskóla.
Lög nr. 66/1995 um grunnskóla, reglugerð nr. 384/1996 um upplýsingaskyldu sveitarfélaga um skólahald, reglugerð nr. 516/1996 um fyrirkomulag og framkvæmd samræmdra prófa í grunnskólum.
Lög nr. 80/1996 um framhaldsskóla, reglugerð nr. 141/1997 um söfnun og dreifingu upplýsinga um skólastarf á framhaldsskólastigi, reglugerð nr. 139/1997 um eftirlit með starfi framhaldsskóla og námsefni og ráðgjöf vegna kennslu og þróunarstarfa.
Lög nr. 131/1990 um Háskóla Íslands.
Lög nr. 51/1992 um Háskólann á Akureyri, reglugerð nr. 380/1994 fyrir Háskólann á Akureyri.
Lög nr. 75/1985 um fjárhagslegan stuðning við tónlistarskóla með síðari breytingum.
Samkvæmt lögum og reglugerðum felst eftirlitshlutverk ráðuneytisins í stórum dráttum í eftirfarandi.
Almennt eftirlit
Hér er um að ræða kerfisbundið eftirlit með því að skólar starfi samkvæmt lögum, reglugerðum og aðalnámskrám. Þessi þáttur byggir m.a. á ítarlegri upplýsingaöflun frá skólum og sveitarstjórnum á ári hverju, samræmdum prófum í grunn- og framhaldsskólum, úttektum á einstökum þáttum skólastarfs og gæðum þess og ýmsum rannsóknum á skólastarfi.
Ef í ljós kemur, að fengnum upplýsingum eða að undangengnu mati, að starfsemi leik- og grunnskóla er í einhverju efni ábótavant tilkynnir menntamálaráðherra það sveitarstjórn og skólastjóra með óskum um tillögur til úrbóta og að úr skuli bætt innan tiltekins tímafrests. Að tímafresti loknum kannir ráðuneytið hvernig til hafi tekist. Verði vart misbrests í starfi framhaldsskóla tilkynnir menntamálaráðherra það skólameistara og skólanefnd formlega með fyrirmælum um að úr verði bætt innan tiltekins tímafrests.
Athuganir vegna kærumála
Berist menntamálaráðuneytinu formleg kæra vegna framkvæmdar skólastarfs, tekur ráðuneytið afstöðu til hverju sinni hvernig bregðast skuli við og lætur fara fram athugun á málinu eftir því sem við á. Á það skal hins vegar bent að samkvæmt lögum um leik- og grunnskóla er rekstur og faglegt starf skólanna alfarið á ábyrgð sveitarstjórna sem bera ábyrgð á að skólahald fari fram samkvæmt lögum og reglugerðum. Sveitarstjórnum ber því lögum samkvæmt að leysa úr þeim ágreinings- og vandamálum sem kunna að koma upp við framkvæmd skólahalds. Að öllu jöfnu beinist eftirlit ráðuneytisins því ekki að daglegum störfum og rekstri leik-og grunnskóla. Framhaldsskólar heyra beint undir menntamálaráðuneytið sem hefur ekki bein afskipti af daglegum störfum skólanna nema því berist formleg kæra og ekki hefur tekist að leysa málið á vettvangi skólans.
Tæki til eftirlits
Upplýsingaöflun
Hér er annars vegar um að ræða tölulegar upplýsingar sem afla skal ár hvert og hins vegar aðrar upplýsingar sem einnig geta verið tölulegar en er aflað með vissu árabili eða þegar þurfa þykir. Þetta geta verið upplýsingar eins og fjöldi nemenda, fjöldi skóladaga, fjöldi kennslustunda í einstökum námsgreinum, árangur skóla milli ára á samræmdum prófum.
Samræmd próf
Ráðuneytið ber ábyrgð á því að haldin séu samræmd próf í grunn- og framhaldsskólum og er tilgangur prófanna fyrst og fremst sá að kanna hvort markmiðum náms samkvæmt aðalnámskrám hafi verið náð. Hér er átt við samræmd próf í 4., 7. og 10. bekk grunnskóla og innan fárra ára verður einnig komið á samræmdum lokaprófum í framhaldsskólum.
Einnig getur ráðuneytið látið fara fram sérstök könnunarpróf í skólum, m.a. í þeim tilgangi að afla upplýsinga um stöðu nemenda í einstökum námsgreinum.
Úttektir á sjálfsmatsaðferðum skóla
Lögin gera ráð fyrir að skólar láti fara fram mat á innra starfi skóla (sjálfsmat) og felst eftirlitshlutverk ráðuneytisins því m.a. í úttektum á sjálfsmatsaðferðum skóla. Gert er ráð fyrir að ráðuneytið láti fara fram slíka skoðun á fimm ára fresti. Ekki hefur verið tekin endanleg ákvörðun um hvernig ráðuneytið kemur til með að standa að slíkum úttektum en til greina kemur að bjóða verkið út á vel skilgreindum faglegum forsendum.
Úttektir á einstökum þáttum skólastarfs
Úttektir á einstökum þáttum skólastarfs geta verið í formi sérstakra athugana eða kannana á þáttum eins og kennsluháttum, kennslu í einstökum greinum, námsefni, stjórnun, samskiptum kennara og nemenda, samskiptum skóla og foreldra, tækjabúnaði og fleira. Samkvæmt reglugerð um starfsemi leikskóla er ráðuneytinu skylt að gera úttekt á a..m.k. einum leikskóla á ári.
Rannsóknir á menntakerfinu
Flestar þjóðir telja mikilvægt að fylgjast með árangri menntakerfisins í samanburði við önnur lönd. Á síðustu árum hefur menntamálaráðuneytið tekið þátt í tveimur alþjóðlegum samanburðarrannsóknum á námsárangri nemenda og stefnir að því að taka reglulega þátt í slíkum rannsóknum í samstarfi við önnur OECD lönd. Slíkar rannsóknir veita mikilvægar upplýsingar um stöðu íslenskra nemenda í samanburði við nemendur í öðrum löndum. Einnig gefa þessar rannsóknir upplýsingar um breytingar á námsárangri nemenda.