Nr. 108, 1. desember 1998: Ráðherrafundur EFTA í Leukerbad í Sviss 30. nóvember 1998.
Ráðherrafundur EFTA var haldinn í Leukerbad í Sviss 30. nóvember 1998. Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra, sat fundinn fyrir Íslands hönd. Á fundinum voru innri málefni EFTA til umræðu, EES málefni og samskipti EFTA við ESB svo og samskipti EFTA við önnur ríki en ESB.
Af samskiptum EFTA ríkjanna við ríki utan ESB ber hæst fríverslunarviðræður við Kanada sem hófust á árinu. Viðræðurnar við Kanada eru umfangsmesta verkefni EFTA síðan EES samningaviðræðunum lauk og verður fríverslunarsamningur EFTA ríkjanna og Kanada væntanlega fyrsti fríverslunarsamningurinn milli Vesturálfu og Evrópu. Ráðherrarnir fögnuðu framvindu viðræðnanna en stefnt er að því að þeim ljúki um mitt næsta ár.
Ráðherrarnir fögnuðu einnig afnámi svissneskra stjórnvalda á tollum á innflutningi vatnafisks frá öðrum EFTA ríkjum frá og með 1. janúar 1999.
EFTA ráðherrarnir áttu einnig sama dag fund með þingmannanefnd EFTA. Á þeim fundi var skiptst á skoðunum um tengsl EFTA við ríki utan ESB, EES og Evrópuþingið, þróunarsjóð EES og tvíhliða viðræður Sviss og ESB.
Í tengslum við ráðherrafundinn var undirritaður fríverslunarsamningur milli EFTA ríkjanna og PLO fyrir hönd sjálfstjórnarsvæðis Palestínumanna. Samningurinn felur í sér fríverslun með iðnaðarvörur og sjávarafurðir og kemur í kjölfar fjórtán svipaðra samninga sem EFTA ríkin hafa gert við ríki Austur- og Mið-Evrópu, Tyrkland, Ísrael og Marokkó. Jafnframt hafa EFTA ríkin gert sex samstarfsyfirlýsingar, sem eru oft undanfari fríverslunarsamninga. Auk þess vinna EFTA ríkin nú að gerð samstarfsyfirlýsinga við Flóaráðið (Gulf Co-operation Council) og MERCOSUR.
Á ráðherrafundinum var ákveðið að hefja fríverslunarviðræður við Egyptaland og verður fyrsti samningafundurinn haldinn í framhaldi af EFTA ráðherrafundinum.
Utanríkisráðuneytið,
Reykjavík, 1. desember 1998.