Hoppa yfir valmynd
3. desember 1998 Matvælaráðuneytið

Þjónustusamningur milli viðskiptaráðuneytisins og Neytendasamtakanna

Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti
Neytendasamtökin
Nr. 21/1998



Í dag 3. desember var undirritaður þjónustusamningur milli viðskiptaráðuneytisins og Neytendasamtakanna. Þetta er í fyrsta sinn sem slíkur samningur er gerður milli þessara aðila. Það skiptir miklu máli að betur sé hugað að þeim málum sem brýnust eru fyrir neytendur hverju sinni og að sett séu skýr markmið á sviði neytendamála. Mikilvægt skref í þá átt hefur nú verið tekið með undirritun þessa þjónustusamnings milli viðskiptaráðuneytisins og Neytendasamtakanna. Í samningnum eru í fyrsta sinn skilgreind þau áhersluatriði sem Neytendasamtökin vinna að og styrkt verða af fjárveitingarvaldinu. Samkvæmt samningnum er lögð áhersla á að styrkja upplýsinga- og kvörtunarþjónustu fyrir neytendur. Mikilvægt er að áfram verði þróuð markviss þjónusta vegna þeirra úrskurðarnefnda sem Neytendasamtökin og ráðuneytið hafa sett á laggirnar í samvinnu við ýmsar atvinnugreinar í landinu. Nauðsynlegt er fyrir neytendur að í boði sé ódýr, örugg og fljótvirk leið til að leysa úr ágreiningsmálum sem kunna að koma upp í viðskiptum.

Auk þessa þjónustusamnings hefur verið unnið að mikilvægum málum sem varða neytendur:

Þrjú ný frumvörp til hagsbóta fyrir neytendur
Íslenskur neytendaréttur hefur þróast ört á undanförnum árum og á þessu kjörtímabili hafa þrjú frumvörp verið undirbúin er fela í sér margvíslegar réttarbætur fyrir neytendur og hafa þau öll verið nýlega lögð fram á Alþingi.
    1. Frumvarp til laga um lausafjárkaup
    Lagt hefur verið fram frumvarp til laga um kaup en því er ætlað að leysa af hólmi gildandi lög um lausafjárkaup frá 1922. Í frumvarpinu er m.a. að finna sérstök ákvæði um neytendakaup og er þar með réttarstaða neytenda styrkt frá því sem verið hefur í viðskiptum þeirra og kaupmanna.
    2. Frumvarp til laga um þjónustukaup
    Lagt hefur verið fram frumvarp til laga um þjónustukaup. Markmið þess frumvarps er að styrkja rétt neytenda þegar þeir kaupa þjónustu sem hinar ýmsu fagstéttir veita.
    3. Frumvarp til laga um innheimtustarfsemi
    Lagt hefur verið fram frumvarp til innheimtulaga. Þeirri löggjöf er m.a. ætlað að draga úr óeðlilegum kostnaði skuldara vegna innheimtuaðgerða.

Nefnd um stefnumörkun til framtíðar í málefnum neytenda
Viðskiptaráðherra hefur skipað nefnd til að vinna að stefnuáætlun í málefnum neytenda. Markmið þeirrar stefnumörkunar er að samræma betur það starf sem nú þegar er unnið í þágu neytendaverndar og kanna leiðir til þess að efla það enn frekar.

Aukin neytendavernd – hagur allra
Á undanförnum árum hefur framboð vöru og þjónustu aukist verulega. Aukið aðhald neytenda er mikilvægt í þeirri samkeppni sem nú ríkir á markaðnum. Fyrir neytendur skiptir því miklu máli að réttindi er þeir njóta að lögum séu ávallt virt. Auk þess hafa rannsóknir sýnt að þau fyrirtæki sem aðlaga skjótt framleiðslu sína að kröfum neytenda vegnar betur en þeim sem ekki gefa gaum að kröfum markaðarins. Aukin áhersla á málefni neytenda er því allra hagur.

Nánari upplýsingar veita Jóhannes Gunnarsson, formaður Neytendasamtakanna, s. 897 5008 og Tryggvi Axelsson, deildarstjóri, viðskiptaráðuneytinu, s. 560 9070

Reykjavík, 3. desember 1998

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta