Nr. 115, 11. desember 1998: Fundir utanríkisráðherra samstarfsráðs NATO og Rússlands, og samstarfsráðs NATO og Úkraínu.
Fréttatilkynning
frá utanríkisráðuneytinu
Nr. 115
Fundir utanríkisráðherra samstarfsráðs NATO og Rússlands, og samstarfsráðs NATO og Úkraínu voru haldnir í Brussel 9. desember s.l. og sat Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra báða fundina.
Á fundi samstarfsráðs NATO og Rússlands var m.a. rætt um ástandið á Balkanskaga og samstarfsáætlun næsta árs. Utanríkisráðherra lýsti ánægju sinni með hve vel hefði til tekist í samstarfsráðinu frá því það var stofnað fyrir einu og hálfu ári. Lagði hann áherslu á að vel heppnuð þátttaka Rússa í stöðugleikasveitum NATO (SFOR) í Bosníu-Hersegóvínu væri kjarninn í hermálasamstarfinu. Hann sagði að mikilvægi samstarfsráðsins hefði komið vel í ljós þegar stefndi í hörmungar vegna átaka í Kosóvó. NATO og Rússlandi gafst tækifæri til að skiptast á skoðunum og upplýsingum um ástandið þar og hafa samráð eftir því sem aðstæður leyfðu. Sagði utanríkisráðherra að náin samskipti stuðluðu að trausti og skilningi, en samstarfsáætlanir þessa og næsta árs bera með sér að samstarfið eykst jafnt og þétt.
Í ljósi ólíkra skoðana NATO og Rússlands á forsendum aðgerða NATO utan bandalagsríkja, eins og í Kosóvó, sagði utanríkisráðherra að mikilvægt væri að lögmætur grundvöllur væri fyrir aðgerðum er ekki féllu undir varnarskuldbindingar NATO. Tók hann einnig fram að Atlantshafsbandalagið, samtök lýðræðisþjóða er stæðu vörð um lög og rétt, gæti ekki látið það afskiptalaust að óvægnir harðstjórar fremdu þjóðarmorð. Miklu skiptir að samfélag þjóðanna nái samstöðu um aðgerðir, sagði ráðherrann, en sundrung á ekki að koma í veg fyrir að gripið sé til aðgerða þegar mannúðarástand krefst þess.
Á fundi samstarfsráðs NATO og Úkraínu voru helstu mál á dagskrá samstarfsáætlun næsta árs og undirritun samkomulags um að tveir starfsmenn bandalagsins yrðu staðsettir í Kænugarði í upphafi næsta árs, sem tengiliðir þarlendra stjórnvalda og NATO.
Í máli utanríkisráðherra kom m.a. fram að samstarfið við Úkraínu væri einkar mikilvægt, ekki aðeins vegna stærðar og legu landsins, heldur einnig vegna þess vilja sem stjórnvöld í Kænugarði sýndu til að stuðla að öryggi á Evró-Atlantshafssvæðinu. Lýsti hann ánægju sinni með hve samstarfið hefði aukist og að NATO tengiliðirnir yrðu til þess að bæta það enn frekar.
Hjálagt fylgja yfirlýsingar ofangreindar funda.
Utanríkisráðuneytið,
Reykjavík, 11. desember 1998.