Dreifibréf til forsvarsmanna allra fjölmiðla um bann við áfengisauglýsingum
Dómsmálaráðuneytið og heilbrigðisráðuneytið hafa í dag, 18. desember 1998, sent frá sér dreifibréf til forsvarsmanna allra fjölmiðla, þar sem vakin er athygli á því að bann við hvers konar auglýsingum á áfengi og einstökum áfengistegundum er í fullu gildi. Dreifibréfið er svohljóðandi:
Til forsvarsmanna allra fjölmiðla
Að gefnu tilefni vilja ráðuneyti dómsmála og heilbrigðismála vekja athygli forstöðumanna fjölmiðla á því að bann við hvers konar auglýsingum á áfengi og einstökum áfengistegundum er í fullu gildi, sbr. 20. gr. áfengislaga nr. 75/1998. Brot á áfengislögum varðar sektum eða fangelsi allt að sex árum. Ríkissaksóknari hefur beint þeim tilmælum til allra lögreglustjóra að þeir taki til rannsóknar öll meint brot á umræddu banni.
Nú er til meðferðar í Hæstarétti refsimál þar sem ákærði hyggst láta á það reyna hvort umrætt ákvæði standist ákvæði stjórnarskrárinnar. Þar til endanlegur dómur liggur fyrir er umrætt bann í fullu gildi.
Reykjavík, 18. desember 1998
F. h. dómsmálaráðherra Þorsteinn Geirsson (sign.) - F.h. heilbrigðisráðherra Davíð Á. Gunnarsson (sign.)