Nr. 120, 21. desember 1998: Forsvarsmenn friðar 2000 á fundi með utanríkisráðherra.
FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu
___________
Nr. 120
Forsvarsmenn Friðar 2000 óskuðu eftir fundi í utanríkisráðuneytinu í dag. Á fundinum var þeim afhent bréf svohljóðandi:
,,Friður 2000 sendi utanríkisráðuneytinu hinn 13. desember sl. erindi, þar sem farið var fram á milligöngu ráðuneytisins við Sameinuðu þjóðirnar vegna flutninga á vörum til Íraks. Ráðuneytið hafnaði beiðninni með bréfi daginn eftir, 14. desember.
Afstaða ráðuneytisins er byggð á forsendum er lágu fyrir þegar í ársbyrjun að lokinni ferð Friðar 2000 til Bagdad um jólin 1997. Reynslan af samvinnu við Frið 2000 við skipulag þeirrar ferðar var með þeim hætti, að ekki er grundvöllur fyrir frekari samvinnu af því tagi.
Ráðuneytið hefur þegar hafnað tveimur beiðnum Friðar 2000 á þessu ári. Annars vegar beiðni um að ráðuneytið sækti um leyfi fyrir Frið 2000 til reglubundinna flugferða til Bagdad og hins vegar beiðni um fjárframlag vegna ferðar til Mið-Ameríku.
Utanríkisráðuneytið hefur um langt skeið átt árangursríkt samstarf við ábyrg félagasamtök, eins og Rauða kross Íslands og Hjálparstofnun kirkjunnar, um ýmis konar neyðaraðstoð, eins og dæmin um neyðaraðstoð við Súdan, Mið-Ameríkuríki og Rússland á þessu ári sýna. Rauði krossinn og samtök, sem Hjálparstofnun kirkjunnar er aðili að, standa þegar með virkum hætti að neyðaraðstoð í Írak.
Utanríkisráðuneytið bendir Friði 2000 á að leita eftir samstarfi við ábyrg samtök af þessu tagi."
Utanríkisráðuneytið
Reykjavík, 21. desember 1998.