Hoppa yfir valmynd
31. desember 1998 Matvælaráðuneytið

Ýmsir atburðir á Ári hafsins 1998

Fréttatilkynning


Að tillögu sjávarútvegsráðherra skipaði ríkisstjórnin starfshóp í lok ársins 1997 til að koma með tillögur um það með hvaða hætti væri hægt að minnast þess að Sameinuðu þjóðirnar tilnefndu árið 1998 ár hafsins. Á vegum starfshópsins var unnið að tillögugerð sem samþykkt var af ríkisstjórninni þann 10. febrúar. Auk þeirra viðburða sem efnt var til í samræmi við tillögur starfshóps ríkisstjórnarinnar þá urðu þeir víða kveikja að frekari viðburðum og kynningu sem miðaði að því að fá sem flesta til að velta fyrir sér mikilvægi hafsins í umhverfi okkar. Miklu þótti skipta að ná til skólabarna í þessu sambandi en margir skólar tóku mjög virkan þátt í þessu starfi. Hér á eftir verða taldir upp nokkrir atburðir sem efnt var til í tilefni af ári hafsins. Til þeirra var ýmist efnt af starfshópi ríkisstjórnarinnar eða öðrum. Þessi upptalning er þó engan vegin tæmandi:

· Ríkisstjórn Íslands gaf út yfirlýsingu í tilefni af ári hafsins þar er minnt á það mikilvæga verkefni mannkynsins sem vernd hafsins er, varað var við hræðsluáróðri um bágt ástand í höfunum og nauðsyn þess að taka þess í stað mið af því þar sem vel hefur tekist til. Yfirlýsingin er á heimasíðu ráðuneytisins og var send sendiráðum Íslands og sendiráðum erlendra ríkja hér. Auk þess er hana að finna á sérstakri heimasíðu Sameinuðu þjóðanna sem sett var upp í tilefni af ári hafsins.

· Um miðjan apríl komu sjávarútvegsráðherrar Íslands, Grænlands og Færeyja hingað á ráðstefnu um ábyrga fiskveiðistjórnun sem haldin var af sjávarútvegsráðuneytinu í samvinnu við Íslandsdeild vestnorrænu þingmannanefndarinnar.

· Í samvinnu við starfshóp ríkisstjórnarinnar skipulagði Sjávarútvegsstofnun Háskóla Íslands röð almenningsfyrirlestra um málefni hafsins. Fyrirlestrarnir voru mjög vel sóttir og þóttu takast í alla staði mjög vel.

· Efnt var til samkeppni um veggspjald í tilefni ársins og var því m.a. dreift í alla skóla og einnig gefið út sem póstkort.

· Sjávarútvegsráðuneytið og sjávarútvegsdeild Háskólans á Akureyri efndu til ráðstefnu um það hvaða menntunar verði krafist í íslenskum sjávarútvegi á nýrri öld.

· Umhverfisráðuneytið gaf út kynningarefni fyrir almenning um samninga og aðgerðir til að draga úr mengun hafsins og kom það út í árslok.

· Sjávarútvegsráðuneytið kostaði gerð kennsluleiðbeininga sem námsgagnastofnun gaf út fyrir kennara með ítarlegri gagnaskrá en þar eru tillögur að því hvernig kenna megi um sjávarútveg á hinum ýmsu stigum grunnskólans. Ritinu var dreift til grunnskólakennara, þegar það var komið í notkun vaknaði áhugi leikskólakennara á að nýta það og fengu þeir það einnig.

· Hafrannsóknarskipið Dröfn varð að skólaskipinu Dröfn á árinu en verkefnisstjórn um skólaskip hefur það til umráða 60 daga á ári. Geysilegur áhugi er á að komast í ferðir með skólaskipinu og komast færri að en vilja.

· Reykjavíkurborg minntist árs hafsins með gerð möppu sem allir leik- og grunnskólar hafa fengið. Þar eru upplýsingar um stofnanir og fyrirtæki sem tengjast hafinu á einhvern hátt og eru tilbúin að taka á móti nemendum eða sinna fræðslu til nemenda með einhverjum hætti.

· Þann 12. september var dagur hafsins. Þann dag höfðu samtök og stofnanir er fjalla um sjávarútvegsmál opið hús og kynntu starfsemi sína af myndarskap. Þúsundir manna sóttu þá atburði sem þar var boðið upp á. Sumar sýningarnar hafa farið víða og í öðrum tilfellum varð þessi dagur upphaf víðtækari kynningar á sjávarútvegi í landinu.

· Útvegsmenn buðu almenningi um borð í fiskiskip sín víða um land. Um borð gerðu áhafnarmeðlimir skipanna grein fyrir þeirri starfsemi sem þar fer fram. Mikill áhugi reyndist vera hjá almenningi fyrir kynningu af þessu tagi.
30.12.98

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum