Hoppa yfir valmynd
5. janúar 1999 Matvælaráðuneytið

Árlegur fundur sjávarútvegsráðherra Íslands og Færeyja. 05.01.99

Fréttatilkynning


Þann 5. janúar 1999 var haldinn hinn árlegi fundur sjávarútvegsráðherra Íslands og Færeyja. Þorsteinn Pálsson, sjávarútvegsráðherra, fór fyrir íslensku sendinefndinni en Jørgen Niclasen, landsstjórnarmaður, fór fyrir þeirri færeysku.

Aðilarnir fóru yfir veiðar Færeyinga í íslenskri lögsögu á síðasta ári, og veiðar Íslendinga í færeyskri lögsögu á sama tíma.

Aðilarnir ræddu botnfiskveiðiheimildir Færeyinga í íslenskri lögsögu. Í framhaldi af því var ákveðið að færeyskum skipum yrði heimilt að veiða 5.600 lestir árið 1999, sem er hækkun um 100 lestir frá fyrra ári. Þorskveiðiheimildir aukast um 150 lestir, í 1.150, en heimildir til lúðuveiða lækka úr 200 lestum í 150 lestir vegna lélegs ástands stofnsins. Heimildir til veiða úr öðrum stofnum haldast óbreyttar.

Rætt var um veiðar á uppsjávartegundum. Ákveðið var að halda veiðiheimildum í þeim óbreyttum. Innan færeysku lögsögunnar er Íslendingum því heimilt að veiða kolmunna, 2.000 lestir af annari síld en þeirri norsk-íslensku og 1.300 lestir af makríl. Innan íslensku lögsögunnar er Færeyingum heimilt að veiða kolmunna og loðnu.

Ákveðið var að semja fyrir 1. júlí n.k. um loðnuveiðiheimildir færeyskra skipa innan íslensku lögsögunnar á næstu veríð. Miðað verður við að leyfður heildarafli verði sá sami og á yfirstandandi vertíð, eða 30.000 lestir, enda breytist forsendur ekki í verulegum atriðum.

Sjávarútvegsráðherrarnir undirstrikuðu mikilvægi þríhliða samstarfs Íslands, Færeyja og Grænlands varðandi stjórnun karfa- og grálúðuveiðaveiða í framtíðinni.

Samhugur var um að styrkja vísindasamstarf milli landanna á sviði hafrannsókna.

Ráðherrarnir ræddu skoðanir sínar á fiskveiðistjórnun, fiskiðnaðnum, og samvinnu innan alþjóðlegra stofnanna. Áhersla er lögð á samvinnu innan fiskveiðisvæðastofnanna eins og NAFO, NEAFC, NAMMCO og ICCAT varðandi túnfiskveiðar.

Reykjavík, 5. janúar 1999

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum