Hoppa yfir valmynd
7. janúar 1999 Matvælaráðuneytið

Auknar niðurgreiðslur á raforku til hitunar íbúðarhúsnæðis

Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti
Nr. 1/1999



    Í fjárlögum yfirstandandi árs voru fjárveitingar til niðurgreiðslu á raforku til hitunar íbúðarhúsnæðis auknar um rúmlega 100 milljónir króna. Með hliðsjón af því hefur iðnaðarráðherra ákveðið að auka niðurgreiðslur á raforku til hitunar íbúðarhúsnæðis frá og með 1. janúar sl. úr 44.100 krónum í 53.100 krónur á íbúð á ári, miðað við 30.000 kWh notkun á ári. Niðurgreiðslur á raforku til hitunar á sveitabýlum og orku frá rafkyntum hitaveitum hafa verið auknar til samræmis við þessa hækkun niðurgreiðslna.

    Auknar niðurgreiðslur ríkissjóðs lækka hitunarkostnaður meðalnotandans miðað við algengasta hitunartaxta hjá Rafmagnsveitum ríkisins úr rúmlega 78 þúsund krónum á ári í tæplega 69 þúsund krónur, eða sem jafngildir rúmlega 12% lækkun.

    Niðurgreiðslur miðast við allt að 30.000 kWh notkun á ári, sem er svipað og meðalnotkun hjá Rafmagnsveitum ríkisins. Húsráðendur sem nota meira þurfa að greiða fullt verð fyrir þann hluta orkunotkunarinnar sem er umfram en 30.000 kWh á ári. Í undirbúningi er átak til að aðstoða þessa notendur við að lækka hitunarkostnað sinn, meðal annars með fræðslu og ráðgjöf um leiðir til að draga úr orkunotkun.

    Árlegur kostnaður fjölskyldu sem notar 30.000 kWh á ári og býr á orkuveitusvæði Rafmagnsveitna ríkisins væri rúmlega 151 þúsund krónur, ef ekki kæmu til niðurgreiðslur ríkissjóðs, afsláttur orkufyrirtækjanna og endurgreiðslna á hluta af virðisaukaskatti. Kostnaðurinn er hins vegar 69 þúsund krónur og notandinn greiðir því um 45% af fullu verði.

    Þessar aðgerðir eru í samræmi við tillögu til þingsályktunar um stefnu í byggðamálum sem forsætisráðherra lagði fram á Alþingi á yfirstandandi löggjafarþingi og er nú til umfjöllunar í þinginu.


    Reykjavík, 7. janúar 1999

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta