Nr. 002, 18. janúar 1999: Fundur Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna um málefni Alþjóðabankans haldinn í Reykjavík, janúar 1999.
Fréttatilkynning
frá utanríkisráðuneytinu
Nr. 002
Dagana 19. og 20. janúar verður haldinn í Reykjavík fundur Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna um málefni Alþjóðabankans. Fundur þessi fylgir í kjölfar tveggja ára setu Halldórs Ásgrímssonar utanríkisráðherra í þróunarnefnd Alþjóðabankans.
Helstu umræðuefni fundarins verða aðstoð Alþjóðabankans við Afríku, framtíðarskipan hins alþjóðlega fjármálakerfis og aðstoð til handa fyrrum stríðshrjáðum ríkjum.
Auk þess sækja fundinn fulltrúar Þróunarbanka Afríku, Þróunarbanka Asíu og Þróunarbanka Ameríku. Rædd verða helstu málefni þessara banka og samvinna þeirra við Alþjóðabankann.
Í umræðum um Afríku mun sérstakur gestur fundarins verða Callisto E. Madavo, varaforseti Alþjóðabankans sem fer með málefni álfunnar. Madavo er meðal reyndustu stjórnenda Alþjóðabankans og hefur á þrjátíu ára löngum starfsferli m.a. verið forstöðumaður þeirrar deildar bankans er fer með málefni Austur-Asíu. Hann var skipaður varaforseti Alþjóðabankans árið 1996.
Madavo mun eiga fund með Halldóri Ásgrímssyni utanríkisráðherra þar sem rædd verða samskipti Íslands og Alþjóðabankans, og ástand mála í Afríku.
Utanríkisráðherra og Callisto E. Madavo munu halda blaðamannafund í utanríksráðuneytinu þriðjudaginn 19. janúar kl. 17:00.
Hjálagt fylgir dagskrá fundar Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna, auk upplýsinga um starfsferil Callisto E. Madavo. Nánari upplýsingar fást hjá Hilmari Þór Hilmarssyni, aðstoðarmanni utanríkisráðherra, í síma 560-9909 eða 896-6266.
Utanríkisráðuneytið,
Reykjavík, 18. janúar 1999.