Hoppa yfir valmynd
25. janúar 1999 Matvælaráðuneytið

Ferð ráðherra til Suður-Afríku

Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti
Nr. 2/1999




Iðnaðar- og viðskiptaráðherra Finnur Ingólfsson lagði í gær, sunnudaginn 24. janúar, af stað í ferð til Suður Afríku. Tilgangur ferðarinnar er að festa í sessi samvinnu landanna á sviði nýsköpunar í iðnaði. Einkum er um að ræða verkefni þar sem sú sérstaða Íslands, að geta boðið upp á ódýra gufuorku gerir landið að samkeppnishæfum valkosti fyrir fjárfesta. Til athugunar hafa einkum verið fjórar verkefnahugmyndir.

Polyol er lífrænt grunnefni sem hingað til hefur verið unnið úr olíu. Polyol er samheiti fyrir ethylen glycol, propylen glycol og glycerin sem eru mikilvæg efni í ýmisskonar plastiðnaði en eru auk þess notuð í matvæli, lyf og snyrtivörur. Til umræðu er framleiðsla á polyol með nýjum aðferðum, sem bandaríska fyrirtækið International Polyol Chemicals (IPCI) hefur þróað, þar sem hráefnið er sykur/sterkja.

Framleiðsla á polyol úr sykri er mjög umhverfisvæn því fyrir hvert tonn af polyol sem er framleitt bindast um sex tonn af koltvísýringi við ræktun sykursins.

IPCI hefur byggt tilraunaverksmiðju í Suður Afríku í samvinnu við heimamenn, sem ráðgera að taka ákvörðun um að byggja polyolverksmiðju í lok þessa árs. Áhugi Suður Afríkumanna á framleiðslu polyols byggir á ódýrum sykri sem þeir hafa mikið af. Áhugi iðnaðarráðuneytisins beinist fyrst og fremst að aðgangi að tilraunarekstrinum í Suður Afríku og þeirri tæknilegu og rekstrarlegu þekkingu sem af honum mun leiða. Sú þekking getur haft verulega þýðingu fyrir endanlega ákvörðun um byggingu slíkrar verksmiðju hér á landi.

Unnin hefur verið forathugun á hagkvæmni þess að reisa 100 þúsund tonna verksmiðju hér á landi sem nota myndi 120 þúsund tonn af sykri eða sterkju. Niðurstöður hennar eru jákvæðar sem m.a. byggist á aðgangi að jarðgufu og kælivatni auk hagkvæmra sjóflutninga á hráefnum og fullunnum vörum. Heimsmarkaður fyrir polyol er um 15 milljón tonn á ári og vex árlega um 360 þúsund tonn.

Annað verkefni sem unnið er að í samvinnu við Suður Afríku er framleiðsla á ostalíki úr jurtaolíum (fiskiolíum) með nýrri aðferð sem byggist á hátíðniblöndun olíunnar, próteina og annarra efna. Aðferðin sem er mjög hraðvirk og hagkvæm byggir á bandarískum einkaleyfum. Tryggður hefur verið aðgangur að framleiðsluréttinum á Norðurlöndunum, í Baltnesku löndunum og í Rússlandi.

Suður Afríkumenn hafa sent hingað hráefni og skoðað tilraunaframleiðslu hjá Mjólkursamlagi KEA sem séð hefur um tækniþróun framleiðslunnar. Þeim þótti framleiðslan hafa tekist vel og hafa óskað eftir samstarfi um þróunarverkefni í Suður Afríku um framleiðslu á ostaafurðum fyrir þá sem eru með mjólkuróþol.

Þriðja samstarfsverkefnið lýtur að framleiðslu á iðnaðaralkóhólum hér á landi. Verkefnið byggir á aðgangi að alkóhólblöndu frá Suður Afríku, bandarískum einkaleyfum til að skilja blönduna sundur og aðgangi að hagkvæmri jarðgufu á Íslandi.

Fjórða samstarfsverkefnið er flúorhúðun á plasti. Aðferðin hefur verið þróuð af Atomic Energy Corporation í Suður Afríku. Flúorhúðunin breytir yfirborði plastsins þannig að gegndræpni þess minnkar t.d. gagnvart leysiefnum. Auk þess verður yfirborðið þannig að auðvelt er að mála það og prenta á það sem annars er erfitt. Fyrirhugað er að senda sýnishorn af framleiðslu íslenskra plastfyrirtækja til Suður Afríku og yfirborðsmeðhöndla þau þar í rannsóknarskyni.

Með iðnaðar- og viðskiptaráðherra í ferðinni til Suður Afríku eru Þórður Friðjónsson og Sveinn Þorgrímsson frá iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti, Garðar Ingvarsson Fjárfestingarstofu Íslands, Sveinn Hannesson Samtökum iðnaðarins og Úlfur Sigurmundsson framkvæmdastjóri fyrirtækisins Ískem sem er þátttakandi í öllum framangreindum samstarfsverkefnum með Suður Afríku.

Að lokinni ferð Finns Ingólfssonar iðnaðar- og viðskiptaráðherra til Suður Afríku fer hann með viðskiptasendnefnd til Malasíu. Finnur tekur við sendinefnd Halldórs Ásgrímssonar að lokinni ferð hennar um Taíland.

Reykjavík, 25. janúar 1999

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta