Hoppa yfir valmynd
29. janúar 1999 Utanríkisráðuneytið

Nr. 007, 29. janúar 1999: Leiðrétting vegna fréttar í DV 29. janúar 1999 um bréfið til dómarans

Fréttatilkynning
frá utanríkisráðuneytinu


Nr. 007

Í frétt DV í dag er fullyrt að utanríkisráðuneytið hafi "haft afskipti af" málaferlum Eimskips gegn bandarískum stjórnvöldum vegna sjóflutninga fyrir varnarliðið á Keflavíkurflugvelli og "freistað þess að hafa áhrif á dómarann sem hefur með málið að gera í Washington, Thomas F. Hogan." Jón Baldvin Hannibalsson, sendiherra Íslands í Washington, hafi sent dómaranum bréf "í þessum tilgangi" sem hafi verið endursent. Þar sem frétt þessi gefur afar villandi mynd af staðreyndum málsins vill ráðuneytið gera stutta grein fyrir þeim.

Í munnlegum málflutningi vegna máls Eimskipafélags Íslands hf. gegn bandarískum stjórnvöldum, sem fram fór 6. janúar sl., fullyrti lögmaður bandaríska dómsmálaráðuneytisins að umfjöllunarefnið í málaferlunum væri til diplómatískrar meðferðar bandarískra og íslenskra stjórnvalda og af þeim sökum væri einkaaðila óheimilt að höfða þetta dómsmál. Fullyrðing lögmannsins var röng, enda höfðu bandarísk stjórnvöld ítrekað hafnað ósk utanríkisráðuneytisins um að eiga samningaviðræður um málið sem varðar m.a. túlkun samnings og samkomulags milli Íslands og Bandaríkjanna um sjóflutninga fyrir varnarliðið frá 24. september 1986. Utanríkisráðuneytið taldi sér rétt og skylt að leiðrétta þessa röngu fullyrðingu og fól sendiráðinu í Washington að hafa samband við bandarísk stjórnvöld í því skyni og óska eftir að þau leiðréttu umrædd ummæli. Töldu þau sér ekki fært að verða við ósk sendiráðsins og bentu sendiráðinu á að koma leiðréttingu á framfæri við dómarann í málinu. Í ljósi þessa ritaði sendiherra Íslands í Washington dómaranum bréf samkvæmt fyrirmælum ráðuneytisins þar sem umrædd fullyrðing lögmanns bandaríska dómsmálaráðuneytisins var leiðrétt. Dómari málsins, sem hefur samkvæmt reglum dómsins nokkuð frjálsar hendur varðandi viðtöku á bréfum sem þessum, tók við bréfinu en ákvað síðan að endursenda það.

Utanríkisráðuneytið,
Reykjavík, 29. janúar 1999.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta