Hoppa yfir valmynd
10. febrúar 1999 Matvælaráðuneytið

Lok aukaaðalfundar NEAFC í Brussel. 10.02.99

Fréttatilkynning


Í gærkvöldi lauk aukaaðalfundi Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðinefndarinnar (NEAFC) sem haldinn var í Brussel. Helstu viðfangsefni fundarins voru stjórnun makrílveiða á alþjóðlega hafsvæðinu, milli Íslands, Færeyja og Noregs, og tillaga Íslands um að bæta gagnaöflun til að auka vísindalega þekkingu, m.a. um aðgreiningu karfastofna í Grænlandshafi. Bæði voru þessi mál til umfjöllunar á 17. ársfundi stofnunarinnar sem haldinn var í nóvember sl.

Evrópusambandið, Noregur og Danmörk f.h. Grænlands og Færeyja, lögðu fram tillögu um stjórn makrílveiða á alþjólegu hafsvæði. Samkvæmt tillögunni verður heildarkvóti á því hafsvæði 44.000 tonn, og þar af koma 2.000 tonn í hlut Íslands.

Ísland og Rússland greiddu atkvæði gegn tillögunni, sem var samþykkt með atkvæðum Evrópusambandsins, Noregs, Danmerkur fh. Grænlands og Færeyja, og Póllands. Í tillögunni var ekki fallist á að Ísland skuli teljast til strandríkja varðandi makríl. Þar sem óyggjandi er að makríll finnst innan fiskveiðilandhelgi Íslands, gat íslenska sendinefndin ekki fallist á tillöguna.

Á fundinum var samþykkt tillaga Íslands um að allar aðildarþjóðir NEAFC komi á fót áætlun um öflun líffræðilegra gagna um úthafskarfa. Áætlun þessi er að verulegu leyti sniðin eftir þeirri áætlun sem unnið hefur verið eftir af Íslendingum undanfarin fjögur ár. Tilgangur þessarar áætlunar er m.a. að safna ítarlegum upplýsingum um dreifingu úthafs- og djúpkarfa í grænlandshafi og einnig að safna upplýsingum um tengsl karfastofna með tilliti til dýpis. Af Íslands hálfu er þetta talið mikilvægt til að Alþóðahafrannsóknaráðið (ICES) geti veitt NEAFC áreiðanlegri ráðgjöf til að stjórna veiðum úr karfastofnum í Grænlandshafi.

Sjávarútvegsráðuneytinu
10. febrúar 1999.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum