Hoppa yfir valmynd
19. febrúar 1999 Matvælaráðuneytið

Friðun hrygningarþorsks á vetrarvertíð 1999. 19.02.99

Friðun hrygningarþorsks
á vetrarvertíð 1999

    Ráðuneytið hefur gefið út reglugerð um friðun hrygningarþorsks á vetrarvertíð 1999. Samkvæmt reglugerð þessari, eru allar veiðar óheimilar á eftirgreindum svæðum á tímabilinu 6.-20. apríl, að báðum dögum meðtöldum:
      1. Fyrir Suður- og Vesturlandi á svæði sem að austan markast af línu sem dregin er réttvísandi í austur frá Stokksnesi og að vestan af línu, sem dregin er réttvísandi 250° frá Skorarvita. Frá Stokksnesi markast svæðið að utan af línu, sem dregin er í 12 sjómílna fjarlægð frá viðmiðunarlínu í punkt í 12 sjómílna fjarlægð suður frá Lundadrangi. Þaðan er línan dregin í punkt 63°08'N og 19°57'V og þaðan í 4ra sjómílna fjarlægð frá Surtsey í punkt í 5 sjómílna fjarlægð suður frá Geirfugladrangi. Þaðan er línan dregin í 5 sjómílna fjarlægð utan við Geirfugladrang í punkt 64°43'7 N og 24°12'V og þaðan í 64°43'7 N og 24°26'V og síðan í punkt í 24,3 sjómílna fjarlægð 250° réttvísandi frá Skorarvita.

      2. Fyrir Suðvesturlandi á svæði, sem að austan markast af 21°V, að sunnan af 63°05'N og að vestan af línu, sem dregin er réttvísandi í suðvestur frá Reykjanesi (aukavita).

      3. Innan þriggja sjómílna fjarlægðar frá fjörumarki meginlandsins fyrir Norður- og Austurlandi frá línu réttvísandi norður frá Horni að línu réttvísandi í austur frá Stokksnesi.
      Þrátt fyrir ákvæði 1. gr. eru grásleppuveiðar, innfjarðarækjuveiðar, hörpudisksveiðar og ígulkeraveiðar heimilar þeim, sem tilskilin leyfi hafa til þeirra veiða innan svæðisins.

      Þá er og heimilt að stunda rauðmagaveiðar á grynnra vatni en 10 föðmum á innanverðum Faxaflóa, innan línu, sem dregin er frá Markakletti á Hraunsnesi, vestan Straumsvíkur, í 6-baujuna, þaðan í Brekkuboðabauju og síðan um Andriðsey í land.


      Sjávarútvegsráðuneytið
      19. febrúar 1999

      Hafa samband

      Ábending / fyrirspurn
      Ruslvörn
      Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum