Hoppa yfir valmynd
22. febrúar 1999 Matvælaráðuneytið

Skólaskipið slær í gegn. 22.02.99


Skólaskipið slær í gegn.

Hafrannsóknaskipið Dröfn, 150 tonna stálskip, var á síðasta ári tekið á leigu til að vera skólaskip 60 daga á ári. Á haustönn þessa skólaárs fóru 475 nemendur af höfuðborgarsvæðinu í ferðir með skólaskipinu. Í fylgd með þeim voru á fimmta tug kennara. Þá fór skipið hringferð um landið og fóru á fjórða hundrað nemendur og kennarar þeirra af landsbyggðinni ferðir með skipinu. Farnar voru samtals 55 ferðir.
Auk framantalinna komu um 140 nemendur í skoðunarferðir um borð í skipið úr yngri bekkjum grunnskólans en það er 9. og 10. bekk sem býðst að fara í skólaskipsferð Gestir skólaskipsins í haust voru því rúmlega eitt þúsund og sextíu.

Verkefnistjórn renndi nokkuð blint í sjóinn með hve mikill áhugi væri meðal barna foreldra og forráðamanna skóla á að fara slíkar ferðir. Raunin er að eftirspurn og áhugi er enn meiri en talið var, og sýnir vel vilja til að kynnast störfum til sjós og vistkerfi hafsins. Nemendur hafa greinilega áhuga á að fá innsýn í, á hverju þarf að kunna skil til að geta veitt fisk, siglt skipum og stundað hafrannsóknir. Þegar er nær fullbókað í allar þær ferðir sem boðið verður upp á á þessu vori en þær hefjast í dag, mánudaginn 22. febrúar.

Skólaskipið Dröfn er tveggja ára tilraunaverkefni á vegum sjávarútvegsráðuneytisins en að þeim tíma liðnum á að meta hvort reynslan gefi tilefni til að halda áfram. Vinna skal að því að tilraunatímanum að kanna hvort og hvernig sveitarfélögin sem reka grunnskólann vilja koma að rekstri skipsins.

Ef áhugi er á að afla frekari upplýsinga um skólaskipið eða taka myndir í skólaskipsferð mætti hafa samband við:
- Þór Ásgeirsson á Hafrannsóknastofnuninni. Hann er verkefnisstjóri um borð og gefur upplýsingar um hvað unglingunum er sýnt og kennt í skólaskipsferðum.
- Pétur Bjarnason formann Fiskifélags Íslands sem á sæti í verkefnisstjórn skipsins. Félagið skipuleggur starfið og sér um tengsl við skólana.
- Kristján Pálsson alþingismann sem hafði forgöngu um það á Alþingi að skólaskipsrekstur yrði með þessum hætti. Hann situr í verkefnisstjórn.
- Guðrúnu Þórsdóttur hjá Fræðslumiðstöð Reykjavíkur. Hún hefur umsjón með fræðslu á þessu sviði og hefur skoðun á því hvort verkefnið komi að gagni.
- Skipstjóra Drafnar Gunnar Jónsson.

Sjávarútvegsráðuneytið
22. febrúar 1999

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum