Hoppa yfir valmynd
4. mars 1999 Matvælaráðuneytið

Rafræn viðskipti - áherslur og aðgerðir

Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti
Nr. 4/1999




Á hádegisverðarfundi með forsvarsmönnum í atvinnulífinu í dag kynnti Finnur Ingólfsson áherslur og aðgerðir iðnaðar- og viðskiptaráðuneytis á sviði rafrænna viðskipta og hvatti atvinnulífið til að taka höndum saman með stjórnvöldum til að vinna að framgangi rafrænna viðskipta. Markmið þeirrar vinnu er að tryggja að rafræn viðskipti njóti viðurkenningar að lögum þannig að frjór jarðvegur skapist fyrir íslenskt viðskiptalíf til að vera í fararbroddi á þessu sviði.

Iðnaðar- og viðskiptaráðherra hefur skipað tvær nefndir til að treysta lagagrundvöll fyrir rafræn viðskipti. Önnur er nefnd um rafrænar undirskriftir en löggjöf um persónulega staðfestingu aðila með rafrænum hætti er lykill að öruggum og hagkvæmum rafrænum viðskiptum. Formaður nefndarinnar er Gunnar Jónsson, hrl. Hin nefndin skal vinna að mótun reglna um útgáfu rafeyris og meta hvort þörf sé á sérstökum lögum um greiðslukortastarfsemi. Formaður nefndarinnar er Yngvi Örn Kristinsson framkvæmdastjóri peningamálasviðs Seðlabankans.

Þá hefur iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið gefið út úttekt á íslenskum lögum með tilliti til rafrænna viðskipta. Höfundar skýrslunnar eru Gunnar Thoroddsen og Skúli Magnússon. Meginniðurstaða skýrslunnar er að ekki sé unnt að fullyrða að íslenskir dómstólar muni skýra réttarreglur, sem áskilja eða binda þýðingu við að löggerningur skuli vera skriflegur, á þá leið að löggerningar sem stofnað er til með rafrænum hætti njóti sömu stöðu og skriflegir. Hagsmunir viðskiptalífsins eru þeir að um rafræn viðskipti gildi skýrar og aðgengilegar reglur. Því sé rétt að setja almennar reglur sem tryggja að löggerningar sem stofnað er til með rafrænum hætti njóti sambærilegrar stöðu og hefðbundnir löggerningar.

Nánari upplýsingar veitir Benedikt Árnason í iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti.

Reykjavík, 4. mars 1999





Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta