Nr. 013, 5. mars 1999: Samkomulag um texta rammasamnings milli Noregs, Íslands og Rússlands um samvinnu á sviði fiskveiða.
Fréttatilkynning
frá utanríkisráðuneytinu
Nr. 013
Á fundi Barentsráðsins í Bodö sem lauk í dag lýstu Knut Vollebæk, utanríkisráðherra Noregs, Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra Íslands og Vasily Stredin, varautanríkisráðherra Rússlands ánægju með að samkomulag skuli hafa náðst um texta rammasamnings milli Noregs, Íslands og Rússlands um samvinnu á sviði fiskveiða sem embættismenn landanna hafa unnið að undanfarið. Enn fremur lýstu ráðherrarnir ánægju með framgang viðræðna um gerð tvíhliða bókana um kvóta og kvótaskipti. Loks lögðu ráðherrarnir áherslu á mikilvægi þess að ljúka gerð bókananna og að þær og rammasamningurinn verði undirrituð hið fyrsta. Samhliða því að samkomulag tókst um texta meginhluta samningsins hafa aðilar náð samkomulagi um að heildarþorskmagn til Íslands í Barentshafi fyrir árið 1999 verði 8.900 lestir auk þess sem gert verður ráð fyrir heimildum til þess að mæta aukaafla íslenskra skipa í lögsögum Noregs og Rússlands. Þessi lausn byggir á hugmyndum frá 1996 sem þá voru um að Ísland fengi viðurkenningu á 13.000 lesta kvóta í Barentshafi er veiddur skyldi bæði utan og innan lögsögu Noregs og Rússlands. Sú lækkun sem þarna hefur orðið varðandi heildarkvóta til Íslands skýrist af því að gert er ráð fyrir því að veiðiheimildir Íslands í lögsögum Noregs og Rússlands breytist í samræmi við árlegar breytingar á leyfðum heildarafla þorsks í Barentshafi. Sem kunnugt er hefur hann dregist verulega saman á síðustu árum. Eins og í fyrri viðræðum er miðað við að meirihluti veiðiheimilda til handa Íslandi sé án gagngjalds. Gert er ráð fyrir því að á næstunni verði samið um nákvæmari skilmála þessu lútandi. Þá fyrst verður unnt að undirrita samningana. Vænta íslensk stjórnvöld þess að þar með megi ljúka þeirri langvinnu deilu sem ríkt hefur um fiskveiðar í Barentshafi. Þessi deila hefur staðið í vegi fyrir samstarfi þessara þjóða og hindrað þær í því að snúa bökum saman í baráttu fyrir sameiginlegum hagsmunum, sérstaklega á sviði sjávarútvegs.
Utanríkisráðuneytið,
Reykjavík, 5. mars 1999.