Maður, nýting, náttúra - Rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma
Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti
Nr. 5/1999
Í framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar í umhverfismálum segir meðal annars: "Iðnaðarráðherra, í samráði við umhverfisráðherra, láti gera rammaáætlun til langs tíma um nýtingu vatnsafls og jarðvarma og skal henni lokið fyrir árið 2000. Áætlunin sé í samræmi við samhæfða stefnu í umhverfis-, orku-, iðnaðar- og efnahagsmálum. Í henni verði sérstaklega fjallað um verndargildi einstakra vatnasvæða og niðurstöður færðar að skipulagi. Í því sambandi verði sérstaklega könnuð áhrif smárra virkjana."
Á undanförnum vikum hefur verið unnið að undirbúningi ofangreinds verkefnis í samvinnu iðnaðarráðuneytis og umhverfisráðuneytis. Verkefnið hefur nú verið skilgreint og skipulagt undir kjörorðinu: "Maður - Nýting – Náttúra; Rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma". Áætlunin var lögð fram af iðnaðarráðherra á ríkisstjórnarfundi í morgun.
Markmið Rammaáætlunarinnar er að leggja mat á og flokka virkjunarkosti, jafnt vatnsafls og háhita, meðal annars með tilliti til orkugetu, hagkvæmni og annars þjóðhagslegs gildis, samhliða því að skilgreina, meta og flokka áhrif þeirra á náttúrufar, náttúru- og menningarminjar svo og á hagsmuni allra þeirra sem nýta þessi sömu gæði. Með þessu móti sé lagður grundvöllur að forgangsröðun virkjunarkosta með tilliti til þarfar þjóðfélagsins hvað varðar atvinnustarfsemi, varðveislu náttúrugæða, styrkingu landsbyggðar og hagsmuna allra þeirra sem nýta þessi sömu gæði með sjálfbæra þróun að leiðarljósi.
Skipulag verkefnisins þarf í senn að vera þannig að innan þess rúmist fagleg vinna og almennur samráðsvettvangur. Það verður því þríþætt; verkefnisstjórn, faghópar og samráðsvettvangur.
Ellefu manna verkefnisstjórn mun stýra verkefninu auk formanna fjögurra faghópa. Stjórnin mun móta áætlunina og skipulag hennar, vinna úr niðurstöðum faghópanna og semja tillögu að rammaáætluninni. Formaður verkefnisstjórnarinnar verður Sveinbjörn Björnsson fyrrverandi háskólarektor.
Skipaðir verða fjórir faghópar með sérfræðingum á viðkomandi sviðum. Hóparnir verða þessir: a) Orkulindir, b) Þjóðhagsmál, atvinnulíf og byggðaþróun, c) Náttúru- og mynjavernd, d) Útivist og hlunnindi.
Brýnt er að vinna við Rammaáætlunina njóti víðtæks trausts úti í samfélaginu. Því er mikilvægt að hafa öflugt samráð meðan að henni er unnið. Slíku samráði verður ýmist við komið í formlegum hópi hagsmunaaðila eða með almennum fundahöldum um allt land. Til þess að undirstrika eðlilegan aðskilnað frá verkefnisstjórninni verður óskað eftir því við Landvernd að samtökin annist samráðsvettvanginn og mun formaður þeirra því eiga sæti í verkefnisstjórninni.
Reykjavík 9. mars 1999.