Hoppa yfir valmynd
11. apríl 1999 Innviðaráðuneytið

Sendinefnd frá Nýfundnalandi

Um helgina var stödd hér á landi, í boði Halldórs Blöndals samgönguráðherra, sendinefnd frá Nýfundnalandi og fór Charles J. Furey, samgönguráðherra Nýfundnalands fyrir nefndinni. Auk ráðherrans voru í sendinefndinni fulltrúar þeirra aðila sem standa að undirbúningi árþúsundamótanna í Nýfundnalandi en gert er ráð fyrir að sigling víkingaskipsins Íslendings verði stór liður í hátíðahöldum næsta árs, a.m.k. í L}Anse aux Meadows og höfuðborginni St. John's.

Á fundi sendinefndarinnar með Landafundanefnd og fulltrúa forsætisráðuneytis var farið yfir stöðu samstarfs landanna vegna árþúsundamótanna, fjármál verkefnisins og ýmislegt fleira sem óhjákvæmilega fylgir svo viðamiklu verkefni.

Sendinefndin fundaði með forsvarsmönnum Flugleiða en mikill áhugi er á að efla flugsamgöngur á milli landanna. Eins og kunnugt er hafa Flugleiðir verið með áætlunarflug til nágrannaríkis Nýfundnalands, Nova Scotia, frá árinu 1996.
Einnig hittu ferðamálasérfræðingar nefndarinnar fulltrúa Ferðaskrifstofunnar Vestfjarðarleiðar en hún bauð upp á ferð til St. John's á síðasta ári sem þótti takast ákaflega vel og er áhugi á að bjóða upp á frekari ferðir þangað.

Með sendinefndinni var Alan Rowsell, kapteinn, sem er aðstoðarforstjóri Kanadísku strandgæslunnar. Hann skoðaði Víkingaskipið Íslending sem nú er í Vestmannaeyjum og fór yfir fyrirhugaða ferð með Gunnari Marel Eggertssyni, skipstjóra víkingaskipsins. Kapteininn kynnti sér einnig m.a. starfsemi Landhelgisgæslunnar og sjálfvirka tilkynningaskyldu en þar eru Íslendingar brautryðjendur.

Í ferðinni var komið að máli við Jóhannes Bjarnason, framkvæmdastjóra Fjörukráarinnar í Hafnarfirði en hann er mjög þekktur í "víkingaheiminum" og þótti fengur í að fá hann til miðla þekkingu sinni varðandi víkingahátíðir.

Kristnihátíðarnefnd og Reykjavík ? menningarborg kynntu það sem efst verður á baugi hér á landi á næsta ári en þeir atburðir sem Landafundanefnd stendur fyrir verða næstum eingöngu vestanhafs. Einnig gafst kostur á að ræða við fulltrúa Sjónvarpsins um tæknileg atriði varðandi sjóvarpsútsendingar tengdar hátíðahöldunum.

Hinir erlendu gestir komu til landsins 11. apríl. Þeir fóru að Gullfossi og Geysi og til Vestmannaeyja en bæjarstjórinn þar stóð fyrir bátsferð og skoðunarferð um bæinn. Samgönguráðherra Nýfundnalands og Halldór Blöndal fóru einnig í Stofnun Árna Magnússonar, skoðuðu handritin og ræddu við sérfræðinga stofnunarinnar í málefnum tengdum landafundunum.

Gestirinir fóru af landi brott í morgun.




Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta