Nr. 028, 14.04.1999: Aðalræðismaður í Winnipeg.
Fréttatilkynning
frá utanríkisráðuneytinu
Nr. 028.
Vegna fréttar dagblaðsins DV í dag um skipan Svavars Gestssonar sendiherra sem aðalræðismanns Íslands í Winnipeg tekur utanríkisráðuneytið eftirfarandi fram:
Skipan aðalræðismannsins var unnin í nánu samráði við stjórnvöld í Kanada og full samstaða um niðurstöðuna. Slíkt samráð er alltaf viðhaft í slíkum málum.
Neil Bardal, fyrrverandi aðalræðismaður í Winniepeg, hefur lengi barist fyrir því að fá útsendan íslenskan sendierindreka til Manitoba. Lagði hann sjálfur til að slíkur sendierindreki yrði skipaður aðalræðismaður í Winnipeg. Neil Bardal er einn virtasti og fórnfúsasti ræðismaður Íslands og mjög náið samráð var haft við hann um afgreiðslu þessa máls.
Neil Bardal verður skipaður aðalræðismaður í heimaborg sinni Gimli, sem er menningarlegur og sögulegur miðpunktur Íslendingasamfélagsins í Kanada.
Svavar Gestsson var ekki skipaður aðalræðismaður í skyndi eins og sagt var í fréttinni heldur var það niðurstaða samráðs utanríkisráðuneytanna í Reykjavík og Ottawa.
Mikil ánægja ríkir í samfélagi fólks af íslenskum ættum í Kanada með skipan sérstaks sendierindreka og telja flestir að í uppsiglingu sé nýtt blómaskeið í samskiptum íslands og vestur-Íslendinga.
Utanríkisráðuneytið,
Reykjavík, 14. apríl 1999.