Hoppa yfir valmynd
20. apríl 1999 Matvælaráðuneytið

Matvælasetur Háskólans á Akureyri. 20.04.99

Matvælasetur
Háskólans á Akureyri



Á fundi ríkisstjórnarinnar í dag var samþykkt tillaga starfshóps, sem sjávarútvegsráðherra skipaði í lok síðasta árs, um að stofna matvælasetur í tengslum við Háskólann á Akureyri enda fáist nauðsynlegar fjárveitingar á fjárlögum næsta árs.

Starfshópurinn gerði tillögu um að stofnað verði rekstrarfélag — Matvælasetur Háskólans á Akureyri — um starfsemi rannsóknastofnana atvinnuveganna sem staðsettar eru á Akureyri. Aðilar að matvælasetrinu verði Háskólinn á Akureyri, Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins, Rannsóknastofnun landbúnaðarins og Iðntæknistofnun Íslands. Þá verði öðrum stofnunum, fyrirtækjum og/eða samtökum þeirra gefinn kostur á að gerast aðilar að rekstrarfélaginu samkvæmt ákvörðun stjórnar félagsins á hverjum tíma.

Í skýrslu starfshópsins kemur fram að stofnun matvælaseturs á Akureyri muni stuðla að tækniyfirfærslu milli hinna ýmsu matvælaframleiðslugreina. Hópurinn telur, svo dæmi sé tekið, að þekking á sviði kjötvinnslu geti nýst fiskvinnslu og öfugt. Jafnframt telur starfshópurinn að starfsemi matvælasetursins muni stuðla að bættri nýtingu rannsóknatækja og bæta mjög starfsumhverfi þess fólks sem vinnur að matvælarannsóknum á Akureyri. Þá er starfshópurinn þeirrar skoðunar að uppbygging matvælaseturs á Akureyri muni efla starfsemi matvælaframleiðslufyrirtækja á svæðinu og styrkja mjög starfsemi matvælaframleiðslubrautar við Háskólann á Akureyri.

Sjávarútvegsráðuneytið
20. apríl 1999.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum